Skilvirkni aukin í endurheimt ávinnings af glæpum
Drög að frumvarpi dómsmálaráðherra til að auka skilvirkni og efla getu yfirvalda til að endurheimta ávinnings af glæpum hafa verið lögð inn í Samráðsgátt.
Í frumvarpinu felast breytingar á m.a. lögum um meðferð sakamála, almennum hegningarlögum og lögreglulögum og er frumvarpið er liður í að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sem leiða má af þátttöku Íslands í alþjóðlega fjármálaaðgerðahópum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, FATF (e. Financial Action Task Force). Með frumvarpinu er regluverk einnig fært til betra samræmis við það sem gildir á hinum Norðurlöndunum.
Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að stofnuð verði sérstök eining hjá embætti héraðssaksóknara sem muni hafa leiðandi hlutverki að gegna á landsvísu við endurheimt ávinnings, til dæmis með aðstoð við lögregluembætti og með umsjón yfir haldlögðum og kyrrsettum eignum. Þá eru einnig lagðar til breytingar sem fela m.a. í sér:
- Að við rannsókn hafi lögregla heimild til að óska eftir upplýsingum hjá fjármálafyrirtækjum án dómsúrskurðar en núverandi fyrirkomulag hefur sætt gagnrýni af hálfu FATF, breytingin er einnig í samræmi við það sem gildir á hinum Norðurlöndunum.
- Að unnt verði að haldleggja eignir til tryggingar greiðslu sekta og sakarkostnaðar, sem og að tryggja réttindi ríkisins í eignum sem lögregla hefur kyrrsett.
- Að heimilt verði að dæma einstaklinga til að greiða fjárhæð sem nemur ávinningi af broti, ef haldlögð verðmæti duga ekki til.
- Að reglur um upptöku ávinnings verði í þeim tilvikum er upptökuþoli er látinn, ekki er vitað hver hann er eða hann finnst ekki.
„Þetta frumvarp er nýtt og mikilvægt skref í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi sem er áherslumál þessarar ríkisstjórnar,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra. „Með frumvarpinu aukum við skilvirkni og eflum löggæsluyfirvöld til að sinna því nauðsynlega hlutverki sem felst í endurheimt illa fengins ágóða. Það er stefna okkar að taka fast á skipulagðri glæpastarfsemi.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra með Bergi Jónssyni yfirlögregluþjóni og Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra.