Þekking náttúrufræðistofnunar lykilmál
Sérstaða íslenskrar náttúru og vistkerfa er ótvíræð og mikilvægi Náttúrufræðistofnunar verður ekki dregið í efa, sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í heimsókn sinni í stofnunina í vikunni.
Í heimsókn sinni fékk ráðherra kynningu á nýrri séríslenskri plöntutegund, tunguskollakambi ((Struthiopteris fallax), sem vex hvergi nema við Deildartunguhver, en tegundin uppgötvaðist vegna söfnunar Náttúrufræðistofnunar. Þá var greint frá uppgötvun elstu lifandi plöntu á Íslands, 465 ára gamals einis sem vex í nágrenni við Þeistareyki og fannst fyrir tilstilli stofnunarinnar.
Ráðherra átti góð samtöl við forstjóra og stjórnendur stofnunarinnar um helstu verkefni hennar og svaraði spurningum starfsmanna um áherslur stjórnvalda í náttúruverndarmálum.
Ráðherra ásamt Eydísi Líndal Finnbogadóttur, forstjóra Náttúrufræðistofnunar.
„Náttúruvernd og líffræðileg fjölbreytni eru gríðarlega mikilvægir málaflokkar, sér í lagi á tímum loftslagsbreytinga. Við þurfum að stíga stærri skref í þeim efnum, enda sérstaða íslenskrar náttúru og vistkerfa ótvíræð. Þar skiptir Náttúrufræðistofnun og þekkingin sem við búum að þar lykilmáli.” segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Í Náttúrufræðistofnun er geymdur fjöldi einstakra sýna, m.a. steindir sem hafa verið uppgötvaðar hér á landi, til að mynda Kristjánít - steind sem nefnd er eftir starfsmanni stofnunarinnar, Kristjáni, sem safnaði sýninu við erfiðar aðstæður eða 670 gráðu hita.
Kristján með Kristjánítið sem hann safnaði við 670 gráðu hita.