Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2025 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Örvar: Sjóður til að efla skapandi hugsun og hugvit

Örvar opnar fyrir umsóknir um miðjan marsmánuð.  - mynd

Í marsmánuði mun nýtt menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti (MNH) taka formlega til starfa. Ráðherra þess er Logi Einarsson. Hið nýja ráðuneyti verður til úr málefnasviðum tveggja ráðuneyta en menningarmál og fjölmiðlar koma úr menningar- og viðskiptaráðuneytinu (MVF) og nýsköpun og háskólamál úr háskóla,-iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu (HVIN). Fækkar því ráðuneytum Stjórnarráðsins um eitt. Upprunalega var miðað við að þessi breyting tæki gildi 1. mars en nú er miðað við að breytingarnar taki gildi 15. mars og miðast þær við að undirritun forsetaúrskurðar um skiptingu málefna hafi farið fram.

Málefnasvið hins nýja ráðuneytis eru fjölbreytt en miða öll að því að efla hugvit, skapandi hugsun og þekkingu í menningu, nýsköpun og háskólastarfi til framtíðar.
Sjóður sem veitir styrki til verkefna og viðburða á málefnasviðum ráðuneytisins hefur verið stofnaður samhliða því að sambærilegir sjóðir MVF (Hvati) og HVIN (Glókollur) hafa verið lagðir niður. Hinn nýi sjóður ber heitið Örvar. Opið verður fyrir umsóknir úr Örvari allt árið og úthlutað ársfjórðungslega.

Hámarksupphæð styrkja er 1 m.kr. Ekki eru veittir styrkir til ríkisstofnana eða sveitarfélaga. 

Matsnefnd fer yfir umsóknir á 3 mánaða fresti og gerir tillögu til ráðherra um úthlutun fjárstyrkja. Svarbréf eru send til umsækjenda í kjölfarið. Nánari upplýsingar verða aðgengilegar þegar opnað verður fyrir umsóknir um miðjan mars n.k. og verður sjóðurinn auglýstur sérstaklega við það tilefni.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta