Þau eru velviljuð, þó séu ófötluð …
Átak, félag fólks með þroskahömlun, hefur birt tónlistarmyndband sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Um er að ræða endurgerð á laginu „Hjálpum þeim“. Myndbandið er hluti af vitundarvakningu sem nú stendur yfir um stöðu, framlag og réttindi fatlaðs fólks og fékk Átak styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til að gera myndbandið:
Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks samanstendur af 60 aðgerðum og 14 þeirra snúa að vitundarvakningu og fræðslu. Markmiðið er að auka vitund almennings um líf og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu, vinna gegn staðalímyndum og fordómum og auka þátttöku og sýnileika fatlaðs fólks.
Átak gerði nýjan texta við lagið og í honum segir meðal annars:
„Menn, konur og kvár eru‘ að reyna, án hjálpar eiga enga von! Búum til betri heim, sameinust hjálpum þeim, þau eru velviljuð, þó séu ófötluð.“
Fyrir okkur öll
Annar þáttur vitundarvakningarinnar er vefurinn Fyrir okkur öll sem fór í loftið fyrir nokkrum dögum. Vefurinn er samstarfsverkefni ráðuneytisins, ÖBÍ réttindasamtaka, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Geðhjálpar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar má meðal annars finna reynslusögur sem byggðar eru á veruleika fatlaðs fólks á Íslandi.
Myndir á samfélagsmiðlum hafa vakið athygli en á þeim má meðal annars finna setningar á borð við: Djamm fyrir okkur öll. Draumastarfið fyrir okkur öll. Heimili fyrir okkur öll. Prófstress fyrir okkur öll!
„Við verðum að auka sýnileika fatlaðs fólks. Lyfta upp veruleika þess og sömuleiðis ómetanlegu framlagi þess til samfélagsins. Vitundarvakningunni er ætlað að gera einmitt þetta og undirstrika um leið réttindi okkar fatlaðs fólks. Samfélagið verður svo miklu betra fyrir okkur öll ef réttindi allra eru virt,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Vitundarvakningin var unnin í breiðu samráði við fatlað fólk, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og fjölmarga aðila. Við höfum sterka og góða tilfinningu fyrir átakinu. Þarna eru mikilvæg skilaboð sem við vonum að sem flestir landsmenn kynni sér.“