Hoppa yfir valmynd
4. mars 2025 Dómsmálaráðuneytið

Alþjóðleg réttaraðstoð gerð einfaldari og skjótvirkari

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum til framlagningar á Alþingi.

Frumvarpið miðar að því að einfalda og hraða málsmeðferð, gera úrræði skjótvirkari og samræma orðalag til samræmis við önnur lög. Með frumvarpinu er einnig stefnt að fullgildingu 2. viðbótarbókunar við Evrópuráðssamninginn frá 1959 um gagnkvæma aðstoð í sakamálum, sem Ísland undirritaði árið 2001.

Alþjóðleg samvinna bætt

„Það er skýr stefna ríkisstjórnarinnar að taka á skipulagðri brotastarfsemi af fullum þunga” segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. „Liður í því er að bæta alþjóðlega samvinnu og því er mikilvægt að skerpa á heimildum ákæruvaldsins fyrir yfirtöku saksóknar, berist beiðni þess efnis frá öðru ríki. Gert er ráð fyrir að meðferð slíkra beiðna verði hjá ríkissaksóknara.”

„Frumvarpið markar mikilvægt skref í nútímavæðingu íslenskra laga um alþjóðlega réttaraðstoð í sakamálum, auk þess að gera málsmeðferð skilvirkari, einfaldari og árangursríkari,” segir dómsmálaráðherra jafnframt.

Sjálfstæði ákæruvaldsins aukið

Ein mikilvægasta breytingin sem frumvarpið felur í sér er að meðferð beiðna um alþjóðlega réttaraðstoð verður alfarið færð til ríkissaksóknara en í dag annast dómsmálaráðuneytið enn ákveðnar beiðnir.

„Það fer betur á því að þetta hlutverk færist alfarið til ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds. Þannig drögum við úr hlutverki dómsmálaráðuneytisins að þessu leyti sem er samræmi við grundvallarsjónarmið um sjálfstæði ákæruvaldsins,“ segir dómsmálaráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta