Hagræðingarhópur skilar tillögum til ríkisstjórnar
Starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri skilaði í dag tillögum sínum til ríkisstjórnar og voru þær kynntar á fjölmiðlafundi í forsætisráðuneytinu síðdegis. Starfshópurinn vann úr næstum fjögur þúsund umsögnum frá almenningi ásamt erindum frá forstöðumönnum ríkisstofnana og ráðuneytum. Hópurinn leggur fram tæplega sextíu metnaðarfullar tillögur til hagræðingar.
Tillögur hópsins voru lagðar fyrir á fundi ríkisstjórnar í morgun. Samþykkt var að vinnuhópur forsætis- og fjármálaráðuneytis sem starfaði með hagræðingarhópnum muni vinna áfram að framkvæmd tillagna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og að ráðuneyti taki mið af vinnunni við gerð fjármálaáætlunar 2026-2030.
„Ég vil þakka öllum sem komu að vinnunni og þá sérstaklega félögum mínum í hagræðingarhópnum og starfsfólki úr stjórnkerfinu sem hefur veitt okkur mikinn stuðning. Nú óska ég ríkisstjórninni, stjórnkerfinu og Alþingi bara góðs gengis við að vinna úr þessum tillögum og koma þeim í framkvæmd með skynsamlegum hætti,“ segir Björn Ingi Victorsson, formaður hagræðingarhópsins af þessu tilefni. Með honum í hópnum voru Gylfi Ólafsson, Hildur Georgsdóttir og Oddný Árnadóttir.
Skúffufé og sérkjör verði afnumin
Hópurinn forgangsraðaði skýrum og framkvæmanlegum tillögum við val sitt. Reynt var að snerta á sem flestum sviðum ríkisrekstrar enda eru tillögurnar af ýmsum toga og er þeim skipt í þrjá kafla: sameiningar og samrekstur, hagræðingu og aðhald og loks tilögur sem snúa að bættu regluverki.
Svo að dæmi séu nefnd er lagt til að sérkjör dómara og handhafa forsetavalds verði afnumin, nefndum og ráðum á vegum ríkisins verði fækkað verulega og að fyrirkomulag um svokallað skúffufé ráðherra verði aflagt.
Sameiningar stofnana og umbætur í opinberum innkaupum
Sameiningar stofnana eru veigamiklar í tillögum hagræðingarhópsins. Lagt er til að stofnanir á ýmsum sviðum verði sameinaðar, til að mynda á sviði löggæslu og réttarvörslu, menningar, náttúruverndar og menntamála. Sem dæmi er lagt til að umgjörð um háskóla verði einfölduð og tvær öflugar háskólasamstæður stofnaðar. Sýslumannsembættin verði auk þess sameinuð í eitt undir merkjum nýrrar Þjónustustofnunar, með starfsstöðvar um allt land. Þá verði lögregluembættum fækkað og neytendavernd styrkt með nýrri og sameinaðri stofnun.
Hagræðingarhópurinn sér jafnframt mikil tækifæri í bættri umgjörð um opinber innkaup, sem skilað gæti umfangsmiklum sparnaði. Auk þess leggur hópurinn til einföldun og margháttaðar umbætur á regluverki.
Bjartsýn á að vinna nýtist vel
„Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á hagsýni í ríkisrekstri og almenningur reyndist sannarlega tilbúinn í það verkefni með okkur. Ég hlakka til að vinna með tillögur hagræðingarhópsins, sem unnið hefur ötullega úr þeim þúsundum erinda sem bárust. Nú er mikilvægt að vanda til verka og fara vel yfir það hvernig þessar tillögur geta nýst, í nánu samráði við ráðuneytin,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og kveðst hún bjartsýn á að vinnan nýtist vel.
„Hagsýni og umbætur í ríkissrekstrinum eru eilífðarverkefni. Fyrir okkur er mikilvægt að finna þann meðbyr sem við fáum frá almenningi um að gera betur. Við munum skoða þessar hugmyndir allar með opnum hug og halda áfram að hvetja ráðuneyti, stofnanir og ríkisfyrirtæki til að huga að umbótum í rekstri með það að markmiði að bæta þjónustu og draga úr kostnaði,“ segir Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.