Hoppa yfir valmynd
6. mars 2025 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Framhald vinnu um hagræðingu og umbætur í ríkisrekstri​

Hagræðingarhópurinn ásamt forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. - mynd

Á fundi ríkisstjórnar þriðjudaginn 4. mars voru kynntar tillögur starfshóps um hagræðingu í ríkisrekstri eftir víðtækt samráð við almenning og stofnanir ríkisins. Samþykkt var að vinnuhópur forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis sem starfaði með hagræðingarhópnum muni vinna áfram að framkvæmd tillagna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og að ráðuneyti taki mið af vinnunni við gerð fjármálaáætlunar 2026-2030.

Ráðuneytum verður falið að vinna nánar að útfærslu og framkvæmd tillagna á kjörtímabilinu. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður unnið að því að hagræða í rekstri ríkisins, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir, sjóði, nefndir og ráð á vegum ríkisins. Fjöldi tillagna og hugmynda liggja nú til grundvallar þeirri vinnu, m.a. frá almenningi, forstöðumönnum hjá ríkinu, ráðuneytum og hagræðingarhópi. Stefnt er að því að vinna hratt að undirbúningi fjölda aðgerða sem komið geta til framkvæmda á kjörtímabilinu. Þær tillögur sem fram hafa komið og varða stofnanir sem ekki heyra undir framkvæmdavaldið verða ekki skoðaðar frekar í þessari vinnu.

Vinnuhópur starfsmanna úr forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti mun hafa yfirsýn yfir verkefnið og fylgja því eftir. Hópurinn mun meðal annars vinna að heildstæðri áætlun um sameiningar stofnana og um sameiningar og fækkun sjóða, nefnda, stjórna og ráða á vegum ríkisins sem liggja mun fyrir á vordögum. Við gerð áætlunarinnar verður ekki einungis horft til markmiða um hagræðingu og einföldun stjórnsýslu, heldur einnig til umbóta s.s. bættrar þjónustu, skilvirkni, sveigjanlegri og sterkari rekstrareininga og dreifingu starfa hins opinbera um landið.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta