Góð þátttaka er á alþjóðlegum leiðtogafundi um málefni kennara – ISTP 2025
Góð þátttaka er á alþjóðlegum leiðtogafundi um málefni kennara (ISTP 2025) sem fer fram í Reykjavík 24.–26. mars. Menntamálaráðherrar og kennaraforysta 22 ríkja munu sækja fundinn sem er stærsti alþjóðlegi fundur leiðtoga á sviði menntamála sem haldinn hefur verið á Íslandi.
Undirbúningur leiðtogafundarins, sem haldinn er í Hörpu, stendur nú sem hæst. Fundurinn markar tímamót í sögu menntamála hér á landi. Hann leiðir í fyrsta sinn saman á Íslandi æðstu valdhafa á sviði menntamála ásamt leiðtogum kennaraforystunnar í viðræður um menntaumbætur.
ISTP er árlegur viðburður, nú haldinn í 15. sinn, með þátttöku þjóða sem standa framarlega í menntamálum. Umræðuefnið er helgað kennarastarfinu, áskorunum til framtíðar, starfsumhverfi og starfsþróun kennara og hvernig best megi innleiða menntaumbætur. Þar er reynslu og þekkingu deilt um hvernig best megi stuðla að gæðamenntun með öfluga kennara við stjórnvölinn. Fundargestir munu einnig heimsækja íslenska leik-, grunn- og framhaldsskóla og kynna sér íslenskt skólastarf.
Katrín Jakobsdóttir mun stýra fundinum en hún tók þátt í einum af fyrstu leiðtogafundum ISTP árið 2012 í tíð hennar sem menntamálaráðherra.
Mennta- og barnamálaráðuneytið stendur að fundinum í Reykjavík ásamt Kennarasambandi Íslands í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og Alþjóðasamtök kennara (Education International). Fundurinn er lokaður en streymt verður frá opnun og lokun viðburðarins.