Hoppa yfir valmynd
6. mars 2025 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

M.is: tveggja verðlauna vefur eða tvennra verðlauna vefur?

M.is - einfaldaðu málið! - mynd

Íslenskuvefurinn M.is hlaut tvenn silfurverðlaun FÍT á föstudaginn, annars vegar í flokki vefhönnunar og hins vegar í flokki gagnvirkrar miðlunar og upplýsingahönnunar. Félag íslenskra teiknara (FÍT) stendur að verðlaununum og heiðrar árlega þau verk sem þykja skara fram úr hér á landi í grafískri hönnun og myndlýsingum.

Í umsögn dómnefndar um M.is segir meðal annars: „Þarft og merkilegt verkefni í gagnvirkri miðlun. Skilvirkt og skemmtilega sett fram.“

 

 

 

Hvað er M.is ?


M.is var formlega kynnt síðastliðinn vetur og er samstarfsverkefni menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Árnastofnunar, unnið af Kolibri hönnunar- og hugbúnaðarstofu. Vefurinn er í þróun samhliða notkun og stendur til að bæta við virkni hans og þjónustu á næstu misserum. 
M.is er sérsniðinn að þörfum yngra fólks og þeirra sem eru að læra íslensku sem annað tungumál. Markmiðið með M.is er að veita aðgang að gæðaefni um íslenskt mál og að M.is verði fyrsti viðkomustaður þeirra sem eru að læra eða vilja bæta sig í íslensku. Þannig einfaldar m.is málið – og er síða sem notendur geta treyst þar sem almennar leitarvélar skila ekki endilega réttri málfræðilegri skýringu efst í leitarniðurstöðum.

Á m.is er að finna íslenska orðabók sem sýnir merkingu orða, beygingu þeirra og helstu orðasambönd. Þar er einnig að finna íslensk-enska orðabók og íslensk-pólska orðabók auk þess sem hægt er að þýða orð eða setningar á ensku. Einfalt hugtakasafn skýrir svo helstu hugtök.

Boðið er upp á að slá inn texta eða tala inn orð og setningar auk þess sem hægt að hlusta á framburð orða. M.is er þróaður á mörkum hefðbundinna orðabóka og máltæknilausna og nýtir til þess nýjustu tækni. Vefurinn mun því þróast áfram samhliða notkun. Meðal atriða sem kemur til greina að bæta við eru yfirlestrartól og samheitaorðabók.

Skoða m.is hér

  • M.is er frábær félagi í verkefnaskilum. - mynd
  • Ekki láta stafsetningu kosta þig sambandið. M.is ! - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta