Nefndahúsi fyrir stjórnsýslunefndir komið á fót
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um að koma á fót sérstöku nefndahúsi sem hýsi stjórnsýslunefndir á vegum ríkisins. Þessi fyrirætlan er í samræmi við tillögu hagræðingarhóps um fækkun nefnda og aukinn samrekstur.
Með stofnun nefndahúss skapast tækifæri til hagræðingar í rekstri en einnig til aukinnar samvinnu og samþættingar stjórnsýslunefnda.
Miðað er við að nefndahúsið taki til starfa 1. september nk. og hýsi til að byrja með fjórar stærstu kærunefndirnar, þ.e. yfirskattanefnd, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, úrskurðarnefnd velferðarmála og kærunefnd útlendingamála, auk nokkurra annarra stjórnsýslunefnda sem hafa samlegð við verkefni fyrrnefndra fjögurra nefnda og boðin verður þátttaka í nefndahúsinu. Í framtíðinni, þegar reynsla er komin á verkefnið, er ætlunin að nefndahúsið taki við sem flestum stjórnsýslunefndum.
Samhliða stofnun nefndahúss verður skipaður vinnuhópur ráðuneyta sem ætlað er að gera tillögur að lagabreytingum sem tengjast starfsemi stjórnsýslunefnda og nefndahúsi. Þar verður meðal annars fjallað um framtíðarfyrirkomulag nefndahúss sem og fækkun og sameiningu stjórnsýslunefnda.