Ráðherra og félagasamtök undirrita rammasamninga til styrktar þróunarsamvinnu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra skrifaði á mánudaginn undir rammasamninga við fjögur íslensk félagasamtök sem starfa að þróunarsamvinnu, þ.e. Rauða krossinn á Íslandi, Hjálparstarf kirkjunnar, Barnaheill – Save the Children á Íslandi og SOS barnaþorpin á Íslandi.
Rammasamningarnir eru til fjögurra ára, 2025-2028, og nema heildarframlög vegna þeirra tæpum 3,4 milljörðum króna í samræmi við samþykkt fjárlög, en framlög í ár nema 714 m.kr. Alls fara 60% framlaganna til þróunarsamvinnuverkefna, 38% til mannúðaraðstoðar og 2% til kynningar- og fræðsluverkefna.
„Þessir samningar eru til marks um það traust og góða samstarf sem utanríkisráðuneytið hefur átt við félagasamtök í þróunarsamvinnu. Það er í dag mikilvægara en nokkur sinni fyrr að við stöndum vörð um mannréttindi og okkar áherslur í þróunarsamvinnu. Því er svo mikilvægt að við vinnum saman og við sjáum fram á náið samstarf næstu fjögur árin,“ sagði Þorgerður Katrín við undirritun samninga.
Auglýst var eftir áhugayfirlýsingum frá félagasamtökum í júní 2024 og stóðust Rauði krossinn á Íslandi, Hjálparstarf kirkjunnar, Barnaheill – Save the Children á Íslandi og SOS barnaþorpin á Íslandi formkröfur.
Rammasamningar styrkja starf íslenskra félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, auka fyrirsjáanleika og gera þeim kleift að skipuleggja starfið til lengri tíma. Samkvæmt rammasamningunum verða félagasamtökin að koma með mótframlög, 20% til verkefna í þróunarsamvinnu og 5% vegna mannúðaraðstoðar. Samningarnir styðja við gildi íslenskrar þróunarsamvinnu: útrýmingu fátæktar, mannréttindi, jafnrétti kynjanna og aukið viðnámsþol samfélaga.