Stóraukning framlaga ESB til varnarmála styrkir NATO
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra átti í dag fjarfund með Antonío Costa, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Kaju Kallas, utanríkismálastjóra ESB, ásamt forsætisráðherrum Noregs, Bretlands, Kanada og forseta Tyrklands.
Megintilefni fundarins var að upplýsa leiðtoga náinna bandamanna ESB, sem eru utan sambandsins, um niðurstöður sérlegs leiðtogafundar ESB í gær þar sem aðildarríki ESB ákváðu að auka framlög til varnarmála fljótt og örugglega um 800 milljarða evra. Í því felast bæði tafarlausar aðgerðir til að styðja við Úkraínu en til að axla aukna ábyrgð til lengri tíma á öryggi álfunnar.
Forsætisráðherra lýsti ánægju sinni með þá ákvörðun leiðtogaráðs ESB að þessi framlög verði nýtt í nánu samstarfi við Atlantshafsbandalagið (NATO). Lagt er upp með að ráðstafanir ESB-ríkjanna til að efla verndargetu muni styrkja bandalagið í heild.
„Þetta var upplýsingafundur um leiðtogafund ESB í gær og sögulega ákvörðun um aukið fjármagn til varnarmála. Evrópa er að hreyfa sig hratt og stíga upp. Það er jákvætt. Þetta verður gert í þéttu samstarfi við NATO, sem er mikilvægt fyrir Ísland og stuðlar einnig að því að þessir fjármunir nýtist sem best, því að þar er sterkur grunnur, samhæfing og verkaskipting. Ísland er herlaus þjóð en framlag okkar í gegnum NATO skiptir máli og tryggir hagsmuni Íslands,“ segir forsætisráðherra.
Á fundinum var einnig rætt um stöðu mála í Úkraínu og framlög einstakra ríkja til að styrkja stöðu Úkraínu á þessum viðkvæma tímapunkti í stríðinu. Fjallaði forsætisráðherra um áherslur ríkisstjórnarinnar og tvöföldun á varnartengdum stuðningi Íslands til Úkraínu sem samþykkt var í ríkisstjórn fyrir tveimur vikum. Þá ræddu leiðtogarnir næstu skref í friðarumleitunum milli Úkraínu og Rússlands og kom fram skýr stuðningur ríkjanna við að halda áfram að efla stöðu Úkraínu sem mest og styrkja þannig stöðu Evrópu gagnvart ógn frá Rússum.