Áætlun um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum til 30 ára birt
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur birt skýrslu um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum til 30 ára í samræmi við lög um opinber fjármál. Þetta er í annað sinn sem slík skýrsla er birt á grundvelli laganna en síðasta skýrsla kom út árið 2021.
Tilgangur skýrslunnar er að upplýsa um þá drifkrafta sem verka á samfélagið yfir langan tíma og mikilvægt er að stjórnvöld séu meðvituð um við ákvarðanir í efnahagsmálum og opinberum fjármálum. Skýrslan fjallar þannig ekki um nýjar ákvarðanir stjórnvalda heldur sýnir framreikning sem nota má sem útgangspunkt í umræðum og stefnumörkun. Í skýrslunni er m.a. fjallað um áhrif lýðfræðilegra breytinga, heilsufars, gervigreindar, loftslagsbreytinga, breytinga í alþjóðakerfinu og uppbyggingar lífeyriskerfisins á lífskjör til langrar framtíðar.
Eðli máls samkvæmt er mikil óvissa um framreikninga til 30 ára og sú staða sem nú er uppi í alþjóðamálum, svo dæmi sé tekið, er síst til þess fallin að draga úr óvissunni.
Staðan hefur batnað frá 2021, en betur má ef duga skal
Niðurstöður skýrslunnar eru að horfur í opinberum fjármálum hafa batnað verulega frá því 2021, í miðjum heimsfaraldrinum. Áskoranir eru þó enn til staðar og mikilvægt að styrkja stöðu opinberra fjármála til þess að búa í haginn fyrir bæði fyrirsjáanlegar lýðfræðilegar breytingar og ófyrirséð áföll framtíðar.
Búast má við að tæknibreytingar hafi veruleg og að mörgu leyti ófyrirsjáanleg áhrif á efnahagslífið á næstu þremur áratugum. Gervigreind gæti aukið framleiðnivöxt, en óljóst er hversu mikið. Á móti vega áhrif m.a. minni vaxtar alþjóðaviðskipta.
Óvissa um fólksfjölgun, en líkur á að áskoranir tengdar öldrun verði viðráðanlegri en víða
Flutningar fólks til og frá landinu hafa verið miklir og sveiflukenndir og erfitt er að spá um þá til langrar framtíðar. Sú mannfjöldaspá sem liggur til grundvallar skýrslunni gerir ráð fyrir mun meiri fólksfjölgun og hagstæðari lýðfræðilegri samsetningu en mannfjöldaspáin sem lá til grundvallar árið 2021. Gangi ný spá eftir verða hlutfallslega mun fleiri landsmenn á vinnufærum aldri á Íslandi en í samanburðarlöndum okkar fram yfir miðja þessa öld. Það hefur jákvæð áhrif á efnahagshorfur og horfur í opinberum fjármálum.
Eldra fólki mun fjölga mjög mikið á næstu áratugum og hlutfallslega meira en í flestum samanburðarríkjum. Ef yngra fólki fjölgar einnig ættu áskoranir tengdar öldrun þó að vera viðráðanlegri en í mörgum öðrum löndum.
Áföll geta haft mikil áhrif og búa þarf í haginn fyrir þau
Það sem af er 21. öldinni hafa nokkur efnahagsleg áföll riðið yfir, bæði innlend og alþjóðleg. Við stefnumörkun í opinberum fjármálum þarf að ganga út frá því að viðlíka áföll geti orðið aftur á næstu áratugum, auk þess sem ekki er hægt að ganga að því sem vísu að lýðfræðileg þróun verði jafn hagstæð og í grunnspá mannfjöldaspár. Í skýrslunni eru því birtar sviðsmyndir með og án áfalla og með ólíkum forsendum um fólksfjölgun. Í sviðsmynd með áföllum og minni fólksfjölgun er þróun opinberra fjármála töluvert óhagstæðari en í sviðsmynd án áfalla.