Heilsuskóla LSH tryggt aukið fjármagn til að efla þjónustu við börn
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur tryggt 36 milljóna kr. aukið framlag til Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins á þessu ári til að styrkja þverfaglega þjónustu fyrir börn í verulegri ofþyngd og fjölskyldur þeirra. Markvisst er unnið að því að stytta bið barna eftir þessari þjónustu og mæta betur sértækum þörfum þeirra. Eins hefur þörf fyrir aðkomu sérfræðinga að meðferð aukist, m.a. með tilkomu nýjunga á sviði lyfjameðferðar við offitu.
Alvarleg lýðheilsuógn
„Offita er alvarleg og vaxandi lýðheilsuógn og sterkur áhættuþáttur fyrir mörgum alvarlegum sjúkdómum, s.s. hjarta- og æðasjúkdómum, stoðkerfisvanda og síðast en ekki síst er það áhættuþáttur fyrir krabbameinum. Því verður að grípa sem fyrst inn í mál einstaklinga þegar hættumerki um ofþyngd koma í ljós. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að bæta þjónustu við börn og stytta biðlista og þetta er eitt af slíkum mikilvægum málum“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.Aukið fjármagn á þessu ári kemur af safnliðum fjárlaga, en stefnt er að því að aukningin verði tryggð varanlega á fjárlögum.
Veigamikið bakland fyrir önnur þjónustustig
Heilsuskólinn er eina þverfaglega teymið á landinu sem sinnir sérhæfðri meðferð við offitu barna. Teymið hefur því veigamiklu hlutverki að gegna sem bakland fyrir þjónustu sem veitt er á fyrsta og öðru stigi, þ.e. í heilsugæslu, á heilbrigðisstofnunum og hjá sjálfstætt starfandi barnalæknum. Nýlega gaf Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu út leiðbeiningar um þjónustu við þennan hóp í heilbrigðiskerfinu og samspil milli þjónustustiga.Flókinn og samþættur vandi og nýmæli í lyfjameðferð
Í mars á liðnu ári skilaði starfshópur skýrslu til heilbrigðisráðherra um málefni sem varða offitu, holdafar, heilsu og líðan ásamt tillögum um stefnumarkandi áherslur í forvörnum, heilsueflingu og meðferð. Í framhaldinu var ráðinn verkefnastjóri til ráðuneytisins til að útfæra tillögur hópsins og þar með tillögur sem snúa að þjónustu Heilsuskólans. Í febrúar var fundað með fulltrúum Landspítala þar sem málefni Heilsuskólans voru rædd. Þar kom fram að innan spítalans hafði verið gripið til ýmissa ráðstafana til að styrkja starfsemi skólans sem hefðu skilað árangri. Hins vegar væru málefni barna sem þyrftu þar þjónustu í vaxandi mæli flóknari og vandi þeirra fjölþættari en áður. Það mætti m.a. rekja til þess að tíðni taugaþroskaraskana, lyndis- og geðraskana er há innan hópsins. Enn fremur gerðu nýjungar í lyfjameðferð við offitu auknar kröfur um sérfræðiþekkingu, m.a. til að stilla af lyf og sinna reglubundinni eftirfylgd með meðferðinni af hálfu þverfaglegs teymis Heilsuskólans. Þörf fyrir að styrkja þverfaglegt teymi Heilsuskólans væri því brýn.