Hoppa yfir valmynd
10. mars 2025 Dómsmálaráðuneytið

Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu skipuð

Skipað hefur verið í nefnd um eftirlit með störfum lögreglu en hún hefur það hlutverk að taka við tilkynningum frá borgurum sem varða ætlaða refsiverða háttsemi starfsmanns lögreglu, starfsaðferðir lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu. Nefndin tekur við kærum á hendur starfsmönnum lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans og tekur til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu. Þá hefur nefndin heimild til að taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar hún telur tilefni til.

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. lögreglulaga skal nefnd um eftirlit með störfum lögreglu skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara og skulu nefndarmenn hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en hinir tveir skulu tilnefndir, annars vegar af Mannréttindaskrifstofu Íslands og hins vegar af Lögmannafélagi Íslands. Varamenn eru tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Nefndarmenn skulu skipaðir til fjögurra ára í senn.

Nýr formaður nefndarinnar verður Dr. Margrét Einarsdóttir, prófessor í lögum við Háskólann í Reykjavík. Aðalmenn í nefndinni verða Flosi Hrafn Sigurðsson, lögmaður, tilnefndur af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kristín Edwald, lögmaður, tilnefnd af Lögmannafélagi Íslands. Varamaður Margrétar verður dr. Hafsteinn Dan Kristjánsson, prófessor í lögum við Háskólann í Reykjavík, og aðrir varamenn verða Þorbjörg Inga Jónsdóttir, lögmaður, tilnefnd af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Elimar Hauksson, lögmaður, tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta