Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður skilar árangri
Verkefnið hófst árið 2020 og hefur að meginmarkmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og landnotkun og auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri. Um er að ræða samstarfsverkefni matvælaráðuneytisins, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Lands og Skógar. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins tók einnig þátt í verkefninu fram til ársins 2024.
Þátttakendur í verkefninu eru nú 55 og hefur fjölgað árlega frá upphafi. Hópur þátttakenda samanstendur af sauðfjárbúum, nautgripabúum, blönduðum búum og garðyrkjubúum. Árið 2024 var megináhersla lögð á að leggja mat á árangur og reynslu og móta framtíðarfyrirkomulag verkefnisins þannig að ná megi til allra bænda. Bændur sem hafa tekið þátt í verkefninu hafa fengið aðgang að ráðgjöf og fræðslu um loftslagsmál og hvatningu til markvissra loftlagsaðgerða.
Ráðgjafafyrirtækið Environice vann árangursmat á verkefninu og samkvæmt skýrslu fyrirtækisins hefur það skilað miklu sem fræðslu- og ráðgjafarverkefni fyrir bændur um hvernig gera megi búreksturinn loftslagsvænni og jafnframt auka rekstrarhagkvæmni. Þekking og reynsla af verkefninu er einnig mikilvæg við þróun nýs stuðningskerfis fyrir landbúnað sem styður við loftslagmarkmið framtíðarinnar.
Upphaflega byggðist verkefnið á fræðslustarfi, þar sem bændur fengu leiðbeiningar um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt nýjum samningi verður aukin áhersla lögð á að hvetja þá hópa sem lengst hafa verið í verkefninu til að deila þekkingu og reynslu af verkefninu og miðla til annarra bænda. Þá verður aukin áhersla lögð á upplýsingagjöf um verkefnið út á við og að að gera fræðsluefni aðgengilegt fyrir alla bændur, m.a. á heimasíðu verkefnisins.
„Framhald þessa verkefnis er fagnaðarefni“ sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra. „Það er mikilvægt að gefa þeim þátttakendum sem hófu þátttöku árin 2022-2023 tækifæri á að halda áfram á sinni vegferð. Verkefnið kallast jafnframt á við áherslumál ríkisstjórnarinnar, að beita markvissum loftslagsaðgerðum svo Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og verði áfram í fremstu röð í baráttu gegn hnattrænni hlýnun.“