Ánægja með þjónustu ríkisins fer vaxandi
Um 23.000 manns hafa sagt sína skoðun á þjónustu ríkisstofnana fyrir árið 2024 í árlegri þjónustukönnun ríkisins. Heildaránægja með þjónustuna eykst á milli ára. Munar þar mestu um að ánægja með viðmót starfsfólks eykst á milli ára sem vinnur á móti því að ánægja með hraða fer lítillega minnkandi. Framkvæmd könnunarinnar var að hluta til með nýju sniði árið 2024 en af þeim 124 stofnunum sem tóku þátt nýttu 75 stofnanir sér rauntímakönnun yfir árið til að ná fram skoðun notenda sinna.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„ Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á hagkvæman og góðan ríkisrekstur og því er sérstaklega gleðilegt að sjá ánægju almennings með þjónustu ríkisins. Ríkisstjórnin hefur að markmiði að þær aðgerðir sem farið verði í á kjörtímabilinu verði til að bæta þjónustuna enn frekar og styðja við þann öfluga mannauð sem stendur að baki þjónustunni.“
Nánar um niðurstöðurnar
Þeir hópar sem eru ánægðastir eru karlmenn, fólk búsett erlendis, fólk sem svarar könnuninni á ensku og pólsku og þau sem eru yfir 55 ára. Sökum þess að könnunin er framkvæmd í rauntíma er nú þegar hægt að sjá hvernig þróunin er í byrjun þessa árs og sýna þær tölur mikla aukningu í ánægju. Nú þegar hafa borist um 25.000 svör fyrir árið 2025.
Vinnueftirlit ríkisins er sú stofnun sem hækkar mest á milli ára í þremur af fjórum spurningum og nær þeim markverða árangri að vera með 4,5 af 5 mögulegum í heildar ánægju með þjónustu.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins:
„Góður árangur kemur ekki af sjálfu sér. Lykillinn að góðri þjónustu Vinnueftirlitsins er að við leggjum okkur öll fram við að þjóna vinnustöðum landsins við að stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks og um leið að velgengni þeirra sjálfra. Við erum til fyrir vinnustaðina og starfsfólk þeirra og leggjum kapp á að vera mannleg og hvetjandi í öllum okkar samskiptum. Ég er ákaflega stolt af liðsheildinni okkar og þeim árangri sem við erum að ná saman“.
Tækifæri liggja í stafrænni þjónustu
Í gegnum Ísland.is er stöðugt unnið að því að bæta opinbera þjónustu og tryggja samræmda þjónustuupplifun notenda.
Birna Íris Jónsdóttir framkvæmdarstjóri Stafræns Íslands:
„Það er virkilega ánægjulegt að sjá niðurstöður þjónustukönnunarinnar sem sýna fram á bætta þjónustu hjá mörgum stofnunum. Með því að nýta kjarnaþjónustur Ísland.is geta stofnanir gert enn betur í þjónustuveitingu. Þjónustukerfi Íslands.is spilar til að mynda lykilhlutverk í góðri og samræmdri þjónustuveitingu ríkisins.“
Gögnin ásamt opnum svörum gefa mikilvæga sýn inn í starfsemi hins opinbera og verða nýtt inn í stefnumótun um opinbera þjónustu sem er í vinnslu. Á vef Stjórnarráðsins má finna frekari upplýsingar um framkvæmdina ásamt niðurstöðum fyrir þær stofnanir sem náðu að minnsta kosti 100 svörum árið 2024.