Kynning á vinnu við stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið boðar til kynningar á vinnu við stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni fimmtudaginn 13. mars kl. 9.30 og er hægt að fylgjast með kynningunni í streymi á vef Stjórnarráðsins.
Á fundinum mun Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flytja stutt erindi um mikilvægi stefnumótunarvinnunnar. Þá mun Snorri Sigurðsson formaður stýrihópsins, sem hefur það hlutverk að móta stefnu um líffræðilega fjölbreytni, greina nánar frá yfirstandandi vinnu. Fjallað verður um skilgreiningar líffræðilegrar fjölbreytni og mikilvægi hennar sem grunnundirstaða lífsgæða á jörðinni, stöðu málaflokksins á Íslandi og hverjar eru helstu orsakir hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni.
Sérstök áhersla er lögð á að kynna nýtt alþjóðlegt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um verndun líffræðilegrar fjölbreytni sem liggur til grundvallar þeirri stefnu sem nú er í vinnslu og mótar markmið og lykilviðfangsefni hennar. Þá verður greint frá skipulagi stefnumótunarvinnunnar og mikilvægum áhersluatriðum er varða innleiðingu og framkvæmd og einnig sagt frá næstu skrefum varðandi samráð.
Stýrihópinn skipa fulltrúar umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, matvælaráðuneytis, Háskóla Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.