Áhersla lögð á baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi
Áherslur ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi voru kynntar á hliðarviðburði íslenskra stjórnvalda og Kvennaárs fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (csw69) í New York í gær.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra sem jafnframt er ráðherra jafnréttis- og mannréttindamála, sagði ofbeldi gagnvart konum einhverja mestu ógn við mannréttindi kvenna í heiminum í dag. Íslensk stjórnvöld legðu áherslu á að beita sér gagnvart þessari ógn, m.a. með því að herða löggjöf og fjölga starfsfólki innan lögreglunnar. Með sama hætti væru í undirbúningi aðgerðir til að vinna gegn umsáturseinelti.
„Það eru ekki mannréttindi að fá að áreita fólk – slíkt mun ekki líðast á minni vakt,“ sagði Þorbjörg Sigríður í ávarpi sínu.
Þorbjörg Sigríður sagði að meðal annars væru í bígerð þrjú stór verkefni í baráttunni gegn kynbundu ofbeldi. Fyrsta verkefnið fælist í aðgerðaáætlun gegn mansali. Annað verkefnið fælist í landsáætlun um aðgerðir til að hrinda í framkvæmd samningi Evrópuráðsins um forvarnir gegn ofbeldi gagnvart konum (Istanbúlsamningnum). Þriðja verkefnið fælist í aðgerðum til að fylgja úr hlaði alþjóðasamningi um afnám allrar mismunar gagnvart konum (CEDAW).
Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fóru yfir helstu vörður í íslenskri kvennabaráttu á fundinum. Þar kom meðal annars fram að þrátt fyrir góðan árangur væru atvinnutekjur kvenna 21% lægri en karla og 40% kvenna hefðu upplifað kynferðilsega áreitni. Þorbjörg Sigríður sagði að vissulega væri fullum árangri ekki náð og ríkisstjórnin legði áherslu á þennan málaflokk með sérstakri áherslu á baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi og launamun.
Þátttakendur í sal spurðu meðal annars að því hvernig hægt væri að stuðla að samstöðu margra samtaka eins og gert væri í Kvennaári. Sonja Ýr svaraði því til að áhersla hefði verið lögð á að sameinast um það sem allar hreyfingarnar gætu verið sammála um.