Ísland í alþjóðlegt vísindasamstarf um líffræðilega fjölbreytni
Vinna er hafin í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu við að undirbyggja aðild og þátttöku Íslands að IPBES, milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfisþjónustu (Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services).
IPBES er einn helsti vettvangur alþjóðlega vísindasamfélagsins til að safna, greina og koma á framfæri grundvallarupplýsingum um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni og veita ráðgjöf á því sviði. Þannig er IPBES sá alþjóðlegi vettvangur sem sameinar vísindamenn og stjórnvöld með það að markmiði að stuðla að betri ákvörðunum varðandi líffræðilega fjölbreytni og vistkerfaþjónustu.
Varðstaða um líffræðilega fjölbreytni er eitt brýnasta viðfangsefni umhverfismála í dag og áherslumál stjórnvalda. Mikil hnignun hefur orðið í líffræðilegri fjölbreytni á alþjóðavísu, m.a. með röskun vistkerfa og samdrætti í búsvæðum tegunda, sem og með fjölgun tegunda í útrýmingarhættu.
Starfsemi IPBES er stýrt af aðildarþjóðum. Þar hafa þær tækifæri til að leggja línurnar en einnig að tryggja aðkomu sinna sérfræðinga að lykilverkefnum. Ísland hefur hingað til aðeins verið áheyrnaraðili en með fullri aðild skapast tækifæri til að styrkja framlag Íslands á alþjóðavettvangi og koma íslenskum áherslum betur á dagskrá, m.a. varðandi málefni norðurslóða. Með þátttökunni gefst enn fremur tækifæri til að efla sess líffræðilegrar fjölbreytni í íslenskri stjórnsýslu í krafti baklandsins sem IPBES færir. Ráðgjöf IPBES hefur þegar sett mark sitt á alþjóðlega stefnumótun umhverfismála, svo sem hjá samningum Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, loftslagsmál og eyðimerkurmyndun.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Ísland hefur alla burði til að vera leiðandi í verndun líffræðilegrar fjölbreytni á heimsvísu. En það gerist ekki af sjálfu sér heldur kallar á pólitískt frumkvæði og skýra stefnumörkun. Dýpra alþjóðasamstarf og virk þátttaka í alþjóðlegum vísindarannsóknum eru lykilinn að því að hámarka árangur Íslands í þessum efnum. Þess vegna tel ég einboðið að Ísland gerist aðili að IPBES, milliríkjavettvangi vísinda og stefnumótunar um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfisþjónustu, og hef sett af stað vinnu í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu sem miðar að þessu.“
Stýrihópur vinnur nú að gerð heildstæðrar stefnu um líffræðilega fjölbreytni og verður greint frá stöðu vinnunnar á kynningarfundi sem haldinn verður í Norræna húsinu fimmtudaginn 13. mars kl. 9:30. Öll eru velkomin á meðan húsrúm leyfir.
Einnig verður hægt að fylgjast með kynningunni í streymi á vef Stjórnarráðsins.