Hoppa yfir valmynd
12. mars 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýr staðall fyrir Barnahús á alþjóðavísu

Matthew McVarish, meðstofnandi Brave Movement, Aaron Greenberg fulltrúi UNICEF, Sergio Mujica framkvæmdastjóri ISO, Jürg Lauber, forseti mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, Sylvie Bollini fulltrúi Evrópuráðsins, Einar Gunnarsson, fastafulltrúi Íslands í Genf, Najat Maalla M’jid, sérlegur sendifulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum, og Erna Kristín Blöndal ráðuneytisstjóri - mynd

Nýjar alþjóðlegar og samræmdar kröfur um barnvæna þjónustu fyrir börn sem sætt hafa ofbeldi voru gefnar út í Genf í dag í tengslum við 58. fund mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Um er að ræða alþjóðastaðal sem staðlasamtökin ISO gefa út að frumkvæði mennta- og barnamálaráðuneytisins og byggir á starfsemi Barnahúss.

Við útgáfuna flutti forseti mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, Jürg Lauber, opnunarávarp en auk hans fluttu ávörp fulltrúar UNICEF, Evrópuráðsins, samtaka þolenda kynferðisofbeldis og ráðuneytisstjóri mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Vinnan byggir á íslenska barnaverndarúrræðinu Barnahúsi sem tekið hefur verið upp í mörgum löndum undir heitinu „Barnahus“. Barnahús sinna börnum sem sætt hafa ofbeldi. Í Barnahúsi fá börn einstaklingsmiðaðan stuðning í barnvænu umhverfi. Tilgangurinn er að vernda börnin með því að veita alla þjónustu sem þau þurfa á að halda á einum stað og einnig til að auka líkur á sakfellingu geranda með samþættingu við réttarfarslega þætti.

UNICEF áætlar að yfir einn milljarður kvenna og karla hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á barnsaldri. Á fjögurra mínútna fresti deyr barn af völdum ofbeldis einhvers staðar í heiminum. 650 milljónir eða ein af hverjum fimm stúlkna og kvenna á lífi í dag hafa verið beittar kynferðisofbeldi sem börn. Áhrif slíks ofbeldis eru djúpstæð, tafarlaus og hrikaleg, með ævilöngum afleiðingum, þar á meðal skertan heilaþroska, líkamlega og andlega heilsu og getu barns til að læra.

Á hliðarviðburði í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag sagði Erna Kristín Blöndal, ráðuneytisstjóri mennta- og barnamálaráðuneytisins, m.a. í ávarpi sínu: „Barnahúss-módelið hefur verið tekið upp af barnaverndaryfirvöldum víða um heim með stuðningi alþjóðastofnana. Misræmi hefur hins vegar gert vart við sig í útfærslunni. Nýr ISO-staðall gerir okkur kleift að samræma betur starfsemina á heimsvísu og bæta þannig gæði þjónustunnar. Okkar von er að framtakið stuðli að aukinni farsæld barna sem beitt hafa verið ofbeldi og eru í mjög viðkvæmri stöðu með heildstæðu og samræmdu úrræði.“

Til að takast á við þetta mikilvæga mál hefur ISO nú hleypt af stokkunum fyrstu alþjóðlegu leiðbeiningunum um barnvæna þjónustu fyrir þolendur ofbeldis, sem mun auka stuðninginn og verndina sem börnum er veitt með heildstæðri og barnamiðaðri nálgun, sem veitir alþjóðlega viðurkennda staðla fyrir samræmd viðbrögð.

Vinnan hófst í byrjun síðasta árs og byggir á vinnustofum m.a. í Reykjavík með fjölbreyttum hópi innlendra og erlendra sérfræðinga á sviði barnaverndar. Áður hafði mennta- og barnamálaráðuneytið samið við sænsku staðlastofnunina, Svenska institutet för standarder (SIS), og Staðlaráð Íslands um að vinna formlega umsókn um alþjóðlega vinnustofusamþykkt um Barnahús. Páll Magnússon í fastanefnd Íslands í Genf leiddi vinnuna á vettvangi ISO við gerð alþjóðastaðalsins fyrir hönd Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta