Breytt skipan öldrunarmála milli ráðuneyta tekur gildi 15. mars
Forsetaúrskurður um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu tekur gildi á morgun, líkt og greint er frá í frétt á vef forsætisráðuneytisins í dag. Ýmsar breytingar verða á skiptingu öldrunarmála milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis sem fær jafnframt nýtt heiti, þ.e. félags- og húsnæðismálaráðuneyti. Hér er gerð nánari grein fyrir því hvað í breytingunum felst varðandi málefni aldraðra.
Eins og segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins flytjast málefni aldraðra, að undanskilinni heilbrigðisþjónustu, frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og húsnæðismálaráðuneytis. Í því felst eftirfarandi:
Húsnæðismál öldrunarstofnana verða á hendi félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, í stað heilbrigðisráðuneytisins áður. Í því felst m.a. uppbygging hjúkrunarheimila, skipulag, áætlanagerð, samningar um framkvæmdir og allt þar að lútandi.
Framkvæmdasjóður aldraðra flyst til félags- og húsnæðismálaráðuneytis. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og eru veittir styrkir úr sjóðnum til framkvæmda við byggingu og endurbætur á t.d. hjúkrunarheimilum, dagdvölum aldraðra, þjónustumiðstöðvum o.fl. skv. reglugerð um sjóðinn.
Þjónusta við aldraða
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið ber samkvæmt forsetaúrskurðinum ábyrgð á opinni öldrunarþjónustu sem skilgreind er í lögum um málefni aldraðra. Í því felst að félagsleg heimaþjónusta verður á ábyrgð félags- og húsnæðismálaráðuneytisins líkt og verið hefur og sama máli gegnir um ábyrgð á þjónustumiðstöðvum aldraðra sem sveitarfélögin starfrækja og þjónustuíbúðum aldraðra. Dvalarrými sem hafa verið á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og þjónusta þeim tengd flyst til félags- og húsnæðismálaráðherra og sömuleiðis ábyrgð á almennum dagdvalarrýmum og þjónustu þeirra. Verkefnið Gott að eldast fellur einnig hér undir.
Heilbrigðisráðuneytið ber áfram ábyrgð á samningum við hjúkrunarheimili um rekstur þeirra og veitingu þjónustu og eftirlit með þjónustunni. Það ber einnig ábyrgð á heilbrigðistengdri heimaþjónustu við aldraða, þ.e. heimahjúkrun og annarri heilbrigðisþjónustu í heimahús. Slík þjónusta er víðast skipulögð og veitt af heilsugæslunni, nema þar sem um er að ræða samþætta heimaþjónustu. Heilbrigðisráðuneytið mun áfram bera ábyrgð á þjónustu í sérhæfðum dagdvalarrýmum.