Hoppa yfir valmynd
14. mars 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp um sölu á hlutum í Íslandsbanka lagt fram á Alþingi

Ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarp um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka og hefur Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagt frumvarpið fram á Alþingi. Frumvarpið breytir lögum frá 2024 sem veita fjármála- og efnahagsráðhera heimild til þess að selja hluti ríkissjóðs í Íslandsbanka í einu eða fleiri útboðum á næstu misserum. Fyrirhugað er að sala fari fram með útboði á fyrri helmingi ársins þar sem almenningur hefur forgang á lögaðila. Lög sem sett voru um sölu eftirstandandi hluta ríkisins í fyrra tryggja að við framkvæmdina á útboðsferlinu verði viðhöfð hlutlægni, hagkvæmni, jafnræði og gagnsæi.

Þrjár tilboðsbækur

Í frumvarpinu, sem birtist í samráðsgátt í febrúar, voru lagðar til breytingar sem fela í sér að þriðju tilboðsbókinni (tilboðsbók C) var bætt við þær tvær sem fyrirhugaðar voru. Var það gert að fenginni ráðgjöf með það að markmiði að tryggja aðkomu allra fjárfestahópa og auka líkur á virkari þátttöku stórra fjárfesta án þess að ganga á forgang almennings.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir þremur tilboðsbókum: A, B og C. Uppfært fyrirkomulag útboðs tryggir einstaklingum lægsta verð og forgang á úthlutun. Tilboðsbók B er óbreytt frá fyrri lögum, með gagnsæja verðmyndun með að lágmarki sama verð og í tilboðsbók A. Þriðja bókin, tilboðsbók C, veitir stórum eftirlitsskyldum fagfjárfestum hefðbundnara úthlutunarferli, á sama verði og í tilboðsbók B, og er talið geta aukið selt magn af bréfum í Íslandsbanka. Með þessum breytingum er því þátttaka allra fjárfestahópa tryggð.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Salan á Íslandsbanka er mikilvægur liður í að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs og ná meiri árangri í opinberum fjármálum. Við leggjum áfram áherslu á forgang almennings en jafnframt bætum við við nýrri tilboðsbók til að styðja við árangursríkt útboð.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta