Mælt fyrir borgarstefnu fyrir Ísland: Staða borga efld í alþjóðlegri samkeppni
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir þingsályktunartillögu um borgarstefnu fyrir Ísland. Í stefnunni felst annars vegar að styrkja höfuðborgarhlutverk Reykjavíkur, höfuðborgarsvæðið og borgarsvæðið í heild og hins vegar að festa Akureyri í sessi sem svæðisborg og skilgreina og efla hlutverk hennar og borgarsvæði.
„Með borgarstefnu er höfuðborgin viðurkennd sem leiðandi afl og mikilvægi hennar í byggðastefnu stjórnvalda skýrt. Á sama tíma er viðurkennd sérstaða svæðisborgarinnar Akureyrar og mikilvægi hennar fyrir alþjóðlega samkeppnishæfni landsins og sjálfbæra þróun, búsetu og lífsgæði á Norðurlandi öllu og austur um land,“ sagði Eyjólfur Ármannsson í framsöguræðu sinni.
Markmið borgarstefnu er að styrkja stöðu Íslands í harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki og stuðla að samspili þéttbýlis og dreifbýlis til uppbyggingar sjálfbærra byggðarlaga. Eyjólfur sagði á Alþingi í gær að OECD hafi lagt mikla áherslu á að ríki móti sér sérstaka borgarstefnu sem stuðli að sjálfbærum vexti borga og borgarsvæða og aukinni skilvirkni sem lið í að efla samkeppnishæfni viðkomandi svæða.
„Borgirnar okkar eru ekki í samkeppni innbyrðis eða í samkeppni við önnur landsvæði hér á landi, heldur í samkeppni við aðrar borgir í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Alþjóðleg samkeppnishæfni landsins veltur þannig að miklu leyti á því að borgirnar og borgarsvæðin okkar hafi sterka stöðu í samkeppni við borgarsvæði erlendis,“ sagði Eyjólfur.
Framtíðarsýn fyrir svæðin
Í þingsályktunartillögunni um borgarstefnu er gerð svohljóðandi grein fyrir framtíðarsýn fyrir Reykjavík, Akureyri og borgarsvæðin:
- Höfuðborgin Reykjavík. Ríki og borg standi saman að því að efla höfuðborgina og lyfta henni í alþjóðlegri samkeppni borga, enda er Reykjavík miðstöð viðskipta, stjórnsýslu, menntunar og menningar í landinu og megingátt inn í landið fyrir sameiginleg verkefni, alþjóðatengsl, vöruflutninga og fjárfestingar.
- Borgarsvæði Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins. Borgarsvæði Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins verði eflt í alþjóðlegri samkeppni borga sem laðar að sér öfluga fjárfestingu og eftirsóttan mannauð. Við ákvarðanir um skipulag og uppbyggingu innviða verði horft á höfuðborgarsvæðið og borgarsvæðið allt sem eina heild þegar kemur að atvinnusókn, búsetu og samgöngum innan þess.
- Svæðisborgin Akureyri. Akureyri verði skilgreind svæðisborg og hlutverk hennar sem slíkrar mótað í samstarfi ríkis og Akureyrar. Svæðisborgin verði efld sem drifkraftur í þjónustu og menningarlífi íbúa og nærliggjandi byggða og sérstaða svæðisins nýtt í því skyni.
- Borgarsvæði Akureyrar. Samhliða mótun hlutverks Akureyrar sem svæðisborgar verði borgarsvæði hennar þróað og unnið að eflingu þess og stækkun í samstarfi ríkis og hlutaðeigandi sveitarfélaga. Afraksturinn verði stærra og öflugra atvinnusvæði, sem er jafnframt eitt búsetu- og þjónustusvæði. Við ákvarðanir um uppbyggingu innviða verði horft til þess að styðja þá þróun.
Fimm lykilviðfangsefni
Fimm lykilviðfangsefni eru skilgreind í stefnunni til að stuðla að því að framtíðarsýn hennar verði að veruleika. Lykilviðfangsefnin eru:
- Atvinnulíf, fjárfestingar og nýsköpun.
- Alþjóðleg samkeppnishæfni.
- Innviðir og umhverfi.
- Heilbrigðis- og félagsmál.
- Menntun og menning.
Borgarstefna hluti byggðastefnu
Þingsályktunartillagan er liður í aðgerðaáætlun stefnumótandi byggðaáætlunar (aðgerð C.4). Borgarstefna verður því hluti af byggðastefnu landsins. Markmið aðgerðarinnar er að tvö stærstu þéttbýlissvæði landsins verði efld og samkeppnishæfi þeirra styrkt.
Tillagan sem nú er lögð fram byggir á vinnu starfshóps um mótun borgarstefnu á grundvelli byggðaáætlunar sem skipaður var árið 2022 og var skilað í júní 2024. Skilgreining og röðun lykilviðfangsefna hefur þó lítillega verið breytt frá þeim tíma.