Römpum upp Íslands fram úr öllum áætlunum: 1756 rampar reistir á vegum verkefnisins
Síðasta rampurinn í verkefninu Römpum upp Ísland var vígður fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands í dag. Ramparnir urðu alls 1.756 en upphaflegt markmið var að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að byggingum vítt og breitt um landið með uppbyggingu 1.000 rampa sem síðan var aukið í 1.500 rampa. Heildarfjöldi rampa fór langt fram úr þeim áætlunum. Verkefnið hófst haustið 2021 og er því nú lokið, ári á undan áætlun.
Verkefninu var fagnað með dagskrá í Hátíðasal HÍ en þar flutti fólk ávörp sem komið hefur að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Einnig voru í boði tónlistaratriði frá KK, krökkum á leikskólanum Bakkaborg og félögum úr Lúðrasveit Reykjavíkur.
„Með því að vinna saman með ótal aðilum, alls staðar að úr samfélaginu, byggðum við 1.756 rampa. Það eru 1.756 staðir sem fólk sem notar hjólastól getur núna farið að borða, læra, hlæja, versla, kyssast, lifa. Gleðin var við stýrið alla ferðina og gleðin skilaði okkur miklu lengra en bjartsýnustu spár. Takk fyrir okkur,“ sagði Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi verkefnisins þegar hann rakti sögu þess og áhrif í HÍ í dag.
„Verkefnið Römpum upp Ísland hefur verið ómetanlegt. Framtakið hefur sýnt hvernig eldmóður og samvinna geta skapað betra samfélag. Þótt við höfum náð þessum mikilvæga áfanga, er verkefninu ekki lokið. Við skulum halda áfram að vinna að því að byggja samfélag þar sem öll hafa jöfn tækifæri, þar sem aðgengi er sjálfsagður hluti af skipulagi og hugarfari,“ segir Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
„Aðgengismál eru grundvallarmál í háskólastarfinu því jafnt aðgengi að háskólamenntun felur jafnframt í sér jafnt aðgengi að tækifærum samfélags og atvinnulífs. Þannig eru aðgengismál í skólastarfi eitthvert áhrifamesta samfélagslega jöfnunartæki sem völ er á,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands í dag.
Úr 100 römpum í 1.756
Átakið hófst sem tilraunaverkefni undir yfirskriftinni Römpum upp Reykjavík árið 2021 en í því fólst að byggja upp 100 rampa í miðborginni. Þegar þeir voru fullbúnir á aðeins átta mánuðum varð ljóst að mögulegt væri að útvíkka verkefnið. Árið 2022 var því ákveðið að byggja upp 1.000 rampa um allt land á fjórum árum. Sama ár var þeirri áætlun breytt í 1.500 og svo var haldið áfram vegna brýnnar þarfar og nú eru ramparnir orðnir 1.756, ári á undan áætlun. Rampurinn sem var vígður í dag við Aðalbyggingu HÍ er sá stærsti til þessa.
Verkefnið hefur haft jákvæð áhrif á lífsgæði ótal margra en með því hefur markvisst verið unnið að því að gera byggingar um landið allt aðgengilegri fyrir öll. Fram að þessu hafa flestir rampanna verið byggðir við byggingar einkaaðila en síðustu áfangar verkefnisins hafa verið í samstarfi við opinbera aðila.
Uppskeruhátíð eftir vígslu síðasta rampsins
Verkefninu var fagnað með dagskrá í Hátíðasal HÍ en þar flutti fólk ávörp sem komið hefur að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Til máls tóku Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitastjórnaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, Dagur B. Eggertsson, alþingismaður og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, Jón Atli Benediktsson háskólarektor, Bryndís Thors grunnskólanemi og Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi verkefnisins og aðalbakhjarl. Einnig voru í boði tónlistaratriði frá KK, krökkum á leikskólanum Bakkaborg og félögum úr Lúðrasveit Reykjavíkur.
Meðal stofnana, fyrirtækja og einstaklinga sem hafa stutt verkefnið eru: Innviðaráðuneytið, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Haraldur Þorleifsson, Reykjavíkurborg, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsbjörg, ÖBÍ, og fjölmargir fleiri.