Hoppa yfir valmynd
15. mars 2025 Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið, Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið tekur formlega til starfa

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. - mynd

Ráðuneyti menningar-, nýsköpunar- og háskóla (MNH) var formlega stofnað í dag samkvæmt forsetaúrskurði. Logi Einarsson er menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Hið nýja ráðuneyti er samsett af skrifstofu menningar og fjölmiðla sem færist úr menningar- og viðskiptaráðuneytinu (MVF) til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis (HVIN), hvers nafn breytist í menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti.

Þannig sameinast kraftar málaflokka menningar, háskóla, nýsköpunar, vísinda, gervigreindar og fjölmiðla í nýju MNH á meðan viðskipti og ferðamál eru nú hluti af málefnasviði nýs atvinnuvegaráðuneytis auk iðnaðar, sem áður heyrði undir HVIN. Frá HVIN flytjast einnig fjarskipti og netöryggi til innviðaráðuneytis.

Nýtt ráðuneyti menningar-, háskóla og nýsköpunar byggir því á þremur meginmálefnasviðum:

  • Menning og skapandi greinar (málefni skv. fjárlögum; hönnun, listir og menning, safnamál, menningarstofnanir, menningarsjóðir)
  • Háskólar og vísindi (málefni skv. fjárlögum; háskólar og rannsóknarstarfsemi, stuðningur við námsmenn, styrkir á sviði háskóla og vísindastarfsemi)
  • Nýsköpun, rannsóknir og stafræn mál (málefni skv. fjárlögum; gervigreind , nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar, fjölmiðlun, höfundarréttur, máltækni og hugverkaréttur)

Ráðuneytið er til húsa að Reykjastræti 8. Ráðuneytisstjóri er Sigrún Brynja Einarsdóttir fyrrum ráðuneytisstjóri MVF. Við endurskipulagningu og formlega stofnun menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis var horft til þess að virkja reynslu og sérþekkingu hvors ráðuneytis fyrir sig og mynda nýja heild.

Hugvit og skapandi hugsun – fjársjóður til framtíðar

Málefnasvið hins nýja MHN eru fjölbreytt en miða öll að því að efla íslenskt hugvit í menningu, háskólum og nýsköpun. Tilgangur ráðuneytisins er skýr; að virkja kraftinn í íslensku þjóðinni enn frekar með það að markmiði að hugvitið auðgi bæði andann og hagkerfið til framtíðar.

„Það er mikill ávinningur í því að samþætta skapandi greinar, nýsköpun og vísindi. Þetta eru málaflokkar sem vinna vel saman og með því að nýta gervigreind er hægt að efla þessa samþættingu enn frekar. Ný nálgun og tækni skapar ný tækifæri. Hugvitið er óþrjótandi uppspretta en hana þarf að næra og virkja,“ segir Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.

Skipurit menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis

Skipurit menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta