Hoppa yfir valmynd
20. mars 2025 Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Handbók um auðlesið mál komin út

Handbók um auðlesið mál er komin út. Með útgáfunni er öllum þeim sem birta efni opinberlega gert kleift að bjóða upp á auðlesna útgáfu. - mynd

Handbók um auðlesið mál er komin út og hægt að nálgast hana endurgjaldslaust á vefnum. Bókin er gefin út á vegum Miðstöðvar um auðlesið mál. Miðstöðin er styrkt af félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og fékk Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, afhent fyrsta eintakið. Með útgáfu handbókarinnar er öllum þeim sem birta efni opinberlega gert kleift að bjóða upp á auðlesna útgáfu.

Aðgengi að upplýsingum er grundvallarréttur allra og í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega kveðið á um að aðildarríki skuli tryggja aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum. Þekking og skilningur á heiminum í kringum okkur er grunnur að því að geta tekið upplýstar ákvarðanir, lifað sjálfstæðu lífi og nýtt þau réttindi og tækifæri sem okkur bjóðast. Til að tryggja að allir hafi raunverulegan aðgang að upplýsingum þarf oft að einfalda framsetningu texta og aðlaga hana að þörfum fjölbreyttra hópa samfélagsins. Ein leið til þess er að nota auðlesið mál.

Hvað er auðlesið mál?

Auðlesið mál er íslenska sem hefur verið einfölduð á skipulegan hátt:

Orðaforði: Einföld orð sem flestir þekkja og skilja.

Setningagerð og málfræði: Stuttar, beinar setningar og einföld málfræðileg uppbygging.

Bakgrunnsþekking: Auðlesið mál gerir ekki sömu kröfu um þekkingu á heiminum og almennir textar.

Framsetning: Textinn er settur fram á skýran hátt með fyrirsögnum og myndrænu efni þegar við á.

Auðlesið mál er ekki einungis einföldun heldur mikilvægt aðgengistæki. Það tryggir að einstaklingar með lestrar- eða lesskilningsörðugleika hafi sama aðgang að upplýsingum og aðrir. Með auðlesnu máli stuðlum við að jöfnum tækifærum og sjálfstæði allra.

Fyrir hverja er auðlesið mál?

Auðlesið mál er fyrir alla sem eiga erfitt með að skilja almenna eða fræðilega texta á íslensku. Í víðum skilningi getur auðlesið mál því verið fyrir okkur öll. Enginn er sérfræðingur í öllu og þegar við förum út fyrir okkar svið gæti auðlesið mál komið okkur að gagni.

Auðlesið mál er þó fyrst og fremst fyrir þau sem vegna fötlunar sinnar eiga varanlega erfitt með að lesa og skilja þá texta sem við þurfum til að lifa sjálfstæðu lífi og njóta réttinda okkar til fulls. Sá hópur getur ekki nýtt sér önnur bjargráð upp á eigin spýtur svo sem texta á öðrum tungumálum, þýðingarforrit, orðabækur og slíkt til þess að fóta sig í veruleikanum. Þess vegna verður auðlesið mál alltaf að taka mið af þeim og þeirra þörfum umfram allt annað.

Eins og áður segir getur auðlesið mál þó gagnast öðrum hópum, svo sem:

    • Óvönum lesendum, eins og börnum sem eru að læra að lesa, eða þeim sem eru að tileinka sér nýja lestrarfærni.

    • Innflytjendum og fólki sem er að læra íslensku sem annað mál. Einfaldir textar með grunnorðaforða auðvelda þeim að skilja og tileinka sér efnið.

    • Þeim sem tímabundið eiga erfitt með lesskilning, t.d. vegna álags eða veikinda.

Handbókin er ætluð öllum þeim sem fást við framsetningu texta í sínu starfi, svo sem kennurum, dagskrár- og textagerðarfólki, ritstjórum, þýðendum og blaðamönnum.

Skýrar leiðbeiningar um hvernig á að skrifa texta á auðlesnu máli

Handbókin inniheldur skýrar og ítarlegar leiðbeiningar um hvernig á að skrifa eða þýða texta á auðlesnu máli, með það að markmiði að hámarka skiljanleika og aðgengi að upplýsingum. Hún er ætluð öllum þeim sem fást við framsetningu texta í sínu starfi, svo sem kennurum, dagskrár- og textagerðarfólki, ritstjórum, þýðendum og blaðamönnum.

Handbókin byggir að stórum hluta á Leichte Sprache – Das Regelbuch sem er handbók þýska rannsóknarsetursins Forschungsstelle Leichte Sprache. Setrið er starfrækt við háskólann í Hildesheim og þar hafa í rúman áratug farið fram vísindalegar rannsóknir á auðlesnu máli, allt frá málfræðilegum og textalegum atriðum til samfélagslegra þátta. Snorri Rafn Hallsson þýddi bókina og staðfærði.

Hluti af landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks

Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks inniheldur 60 aðgerðir sem ætlað er að koma greinum samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks til framkvæmdar og snúa að mismunandi sviðum mannlífsins. Ein af þeim fjallar um auðlesið efni og er styrkurinn til Miðstöðvar um auðlesið mál hluti af þeirri aðgerð.

Miðstöð um auðlesið mál sér um að yfirfæra texta, til dæmis frá stofnunum og fyrirtækjum, fræðslu- og kennsluefni, yfir á auðlesið mál, auk þess að sinna fræðslu og ráðgjöf. Hægt er að fá ráðgjöf um auðlesið mál hjá miðstöðinni.

Inga Sæland tekur við handbókinni frá Snorra Rafni Hallssyni sem þýddi bókina og staðfærði hana.

Ráðherra ásamt Snorra Rafni Hallssyni og Oddbergi Eiríkssyni, forstöðumanni Fjölmenntar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta