Leiðrétting vegna fréttaflutnings um meintan trúnaðarbrest forsætisráðuneytis
Fullyrðingar sem fram komu í fréttum RÚV um að forsætisráðuneytið hafi rofið trúnað með upplýsingagjöf til mennta- og barnamálaráðherra eiga ekki við rök að styðjast. Hið rétta er eftirfarandi.
Með tölvupósti 9. mars. síðastliðinn barst forsætisráðherra beiðni um 5 mínútna fund án þess að fundarefnið væri tilgreint. Þann 11. mars barst aftur tölvupóstur frá sama aðila þar sem fyrri ósk um fund var ítrekuð. Þar var einnig tekið fram að erindið varðaði mennta- og barnamálaráðherra og að það væri í góðu lagi að mennta- og barnamálaráðherra sæti fundinn. Að öðru leyti komu engar frekari upplýsingar fram um tilefni fundarbeiðninnar.
Þar sem beiðnin var um fund með bæði forsætisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra spurði aðstoðarmaður forsætisráðherra aðstoðarmann mennta- og barnamálaráðherra hvort hann þekkti til sendanda eða vissi um hvað málið snerist. Svo var ekki. Önnur samskipti áttu sér ekki stað um málið. Í kjölfarið var þess óskað með tölvupósti að sendandi myndi skýra erindið frekar. Þá barst svar með tölvupósti þann 13. mars þar sem gerð var nánari grein fyrir tilefni fundarbeiðninnar. Samskipti um það áttu sér ekki stað milli forsætisráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis fyrr en í dag.