Hoppa yfir valmynd
20. mars 2025 Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Mælti fyrir frumvarpi um lögfestingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. - mynd

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Markmið lögfestingarinnar er að auka réttaráhrif samningsins hér á landi, tryggja að fatlað fólk njóti til fulls allra mannréttinda og koma í veg fyrir mismunun á grundvelli fötlunar. Lengi hefur verið kallað eftir lögfestingunni hér á landi.

„Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks markaði mikil tímamót í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks. Auk þess að skilgreina sjálfsögð réttindi fatlaðs fólks, byggir samningurinn á þeirri hugmyndafræði að fötlun sé hluti af mannlegum fjölbreytileika fremur en frávik,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra í framsöguræðu sinni.

„Jafnrétti og bann við mismunun eru hornsteinn þeirra réttinda sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um. Jafnrétti er þannig rauði þráðurinn í gegnum allar greinar samningsins og mun lögfesting hans hafa jákvæð áhrif á réttindi alls fatlaðs fólks hér á landi, óháð aldri, uppruna eða búsetu. Samningurinn tryggir fötluðu fólki víðtæk mannréttindi; borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Réttindi sem ófötluðu fólki þykja sjálfsögð.“

Fullgild réttarheimild

Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2007 og fullgilti hann árið 2016. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar kemur fram að lögfesta skuli samninginn. Lögfestingin hefur í för með sér að hægt verður að beita samningnum sem fullgildri réttarheimild fyrir dómstólum og öðrum úrskurðaraðilum.

Til að koma réttindum samningsins betur í framkvæmd og undirbúa lögfestinguna hefur verið unnið eftir landsáætlun um málefni fatlaðs fólks. Landsáætlunin felur í sér skýra framtíðarsýn, kortlagningu, greiningu og mat á kostum til að stuðla að farsælli innleiðingu samningsins. Hún var unnin í afar breiðu samráði og inniheldur 60 aðgerðir sem snerta fjölmörg málefnasvið, stofnanir, sveitarfélög og aðra hagaðila.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta