Hoppa yfir valmynd
21. mars 2025

Hvítbók um varnarmál og sparnaðar- og fjárfestingasamband ESB

Að þessu sinni er fjallað um:

  • hvítbók um varnarmál og endurvopnunaráætlun
  • fund leiðtogaráðs ESB
  • sparnaðar- og fjárfestingasamband ESB
  • aðgerðaáætlun um samkeppnishæfni og afkolun í stál- og málmiðnaði
  • uppgjörstíma í verðbréfaviðskiptum
  • sameiginlegt evrópskt endursendingarkerfi
  • tillögu að löggjöf um mikilvæg lyf
  • hreinatvinnustefnu og ríkisaðstoð – opið samráð
  • nýjan vegvísi um jafnrétti kynjanna
  • öryggi sæstrengja
  • óformlegan fund samgönguráðherra
  • óformlegan fund vísinda- og nýsköpunarráðherra

 

Hvítbók um varnarmál og endurvopnunaráætlun ESB

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Inngangur
  • Helstu tillögur sem felast í hvítbókinni
  • Endurvopnunaráætlun ESB - Ný fjármögnunarleið opin EES/EFTA-ríkjunum
  • Aukinn stuðningur við Úkraínu
  • Samstarf við önnur ríki og alþjóðastofnanir styrkir sameiginlegt öryggi

Inngangur

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) birti í vikunni hvítbók um varnarmál (e. White paper for European Defence - Readiness 2030). Samhliða birti framkvæmdastjórnin annars vegar orðsendingu um breytingar á heimildum aðildarríkja ESB til að víkja frá fjármálareglum og stöðugleikamarkmiðum sambandsins (e. Stability and Growth Pact) og hins vegar tillögu að nýrri reglugerð ráðherraráðs ESB um öryggisaðgerðir fyrir ESB með eflingu hergagnaiðnaðar í sambandinu (e. Security Action for Europe (SAFE) through the reinforcement of European defence industry Instrument).

Með framangreindu er annars vegar lagður grunnur að stórfelldri endurvopnun og um leið kynnt ný stefna í varnarmálum þar sem fjárfestingaþarfir eru m.a. skilgreindar. Þá miða ráðstafanir sem lagðar eru til að því að gera ESB og aðildarríkjum þess kleift að bregðast við brýnni þörf á auknum stuðningi við Úkraínu.

Þegar Ursula von der Leyen (VdL), forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti Evrópuþinginu áherslur sínar í aðdraganda að endurkjöri hennar í embætti forseta sl. sumar boðaði hún útgáfu hvítbókar um varnarmál, sbr. umfjöllun í Vaktinni 26. júlí sl. Er í hvítbókinni að finna tillögur um hvernig ESB geti stutt við aðildarríkin á sviði varnar- og hernaðarmála, en varnarmál eru enn á fullu forræði aðildarríkjanna. Má ljóst vera að árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og allsherjarinnrásin sem hófst 24. febrúar 2022, eða fyrir rétt rúmum þremur árum síðan og sú gjörbreytta staða í varnar- og öryggismálum sem skapaðist í kjölfar innrásarinnar hafi framkallað  grundvallarbreytingu á samstarfi aðildarríkjanna á vettvangi ESB á þessu sviði. Þá hefur stefnubreyting Bandaríkjanna í málefnum Úkraínu og í varnarmálum almennt hraðað þessari þróun, sbr. nánari umfjöllun í Vaktinni 14. febrúar sl. um þróun og stöðu varnarsamstarfs á vettvangi ESB og í Vaktinni 7. mars sl. þar sem fjallað var um endurvopnunaráætlun ESB.

Helstu tillögur sem felast í hvítbókinni

Í hvítbókinni segir að öryggisumhverfi Evrópu sé að taka gagngerum breytingum og að Evrópa standi frammi fyrir alvarlegum ógnum. Frá Rússlandi standi bein hernaðarógn, ásælni Kína eftir auknum áhrifum skapi einnig hættu og þá standi Evrópa berskjölduð gagnvart því ef átök í nágrannaríkjum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku smitast yfir til álfunnar. Á sama tíma telji Bandaríkin sig þurfa að draga úr hernaðarumsvifum í Evrópu til að styrkja viðveru síðan annars staðar. Þessi breytta staða kalli á að Evrópuríki þurfi að styrkja varnarviðbúnað sinn verulega og taka í auknu mæli ábyrgð á eigin vörnum.

Í hvítbókinni er að finna tillögur framkvæmdastjórnar og utanríkisþjónustu ESB um hvernig ESB geti stutt við uppbyggingu aðildarríkjanna á varnarviðbúnaði sínum og stuðlað að endurvopnun Evrópu. Tillögurnar miða að því að styðja við getu aðildarríkjanna til að auka framlög sín til varnarmála, auka varnarviðbúnað og hernaðargetu þeirra, efla hergagnaframleiðslu og varnartengdan iðnað í Evrópu, liðka fyrir viðskiptum á meðal aðildarríkjanna með hergögn og annan varnartengdan búnað og treysta frekar viðbúnað ESB-ríkjanna til að bregðast við þeim margvíslegu ógnum sem þau standa frammi fyrir. Meginframlag ESB í varnar- og öryggismálum er að styðja aðildarríkin fjárhagslega í uppbyggingu varna þeirra og setja sameiginlegar reglur sem stuðlað geti að nánara samstarfi ESB-ríkjanna á sviði varnarmála. Er í hvítbókinni einnig lögð rík áhersla á gagnkvæman ávinning samstarfs ESB við náin samstarfsríki á borð við Ísland til þess að tryggja frið, öryggi og stöðugleika í Evrópu og víðar.

Tillögur hvítbókarinnar miða að því fylla upp í göt í varnargetu aðildarríkjanna, styðja við evrópskan varnariðnað með samþættri eftirspurn og samvinnu í innkaupum, auknum hernaðarlegum stuðningi við Úkraínu og stuðla að frekari samþættingu evrópska og úkraínska varnariðnaðarins, styrkja innri markað ESB á sviði hergagna og öðrum varnartengdum búnaði, m.a. með einföldun regluverks, hraðari umbreytingum á varnarbúnaði t.d. með gervigreind og skammtatækni, styrkja evrópskan viðbúnað fyrir verstu hugsanlegu sviðsmyndir með því að auka hreyfanleika herafla aðildarríkjanna, birgðasöfnun og styrkingu á ytri landamærum (sérstaklega milli ESB-ríkja og Rússlands og Belarús).

Segja má að meginþráðurinn í hvítbókinni sé að greina þau svið þar sem ESB geti stutt aðildarríkin við að efla varnar- og hernaðargetu sína, enda eru varnar- og hernaðarmál enn á fullu forræði aðildarríkjanna eins og áður segir. Er í hvítbókinni m.a. fjallað um hvernig ESB geti aðstoðað aðildarríkin í sameiginlegum innkaupum á hergögnum og fjármögnun varnaruppbyggingar, sérstaklega við kaup á búnaði sem aðildarríkin skorti til þess að geta haldið uppi trúverðugum vörnum. Í því samhengi eru sérstaklega nefnd loft- og eldflaugavarnarkerfi, stórskotaliðsbúnaður, skotfæri og eldflaugar og drónaloftför. Einnig er fjallað um hvernig ESB geti stutt við áætlanir um aukinn hreyfanleika herafla aðildarríkjanna og auðveldað liðsflutninga með því að styrkja samgönguinnviði, auðvelda notkun herafla á samgöngumannvirkjum sem einnig hafa borgaralegan tilgang, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar hér að neðan um fund samgönguráðherra ESB, og auðvelda stjórnsýslu vegna flutninga á herliði og hergögnum. Þá beri að efla ytri landamæri ESB, sérstaklega í austri. Þá muni ESB styðja við aukna tækniþróun og nýsköpun á þessu sviði, m.a. með frekari þróun gervigreindar og stuðla að einföldun og samræmingu regluverks með það fyrir augum að auðvelda viðskipti á meðal aðildarríkjanna með hergögn.

Endurvopnunaráætlun ESB - Ný fjármögnunarleið opin EFTA-ríkjunum

Í hvítbókinni er jafnframt fjallað um áætlun framkvæmdastjórnarinnar um hvernig ESB geti stutt aðildarríkin í að efla vopnabúr sín. Sá kafli ber yfirskriftina “Endurvopnun Evrópu” (e. ReArm Europe). Þessi áætlun er reist á þremur stoðum. Í fyrsta lagi á að gera aðildarríkjunum kleift að auka opinber útgjöld til varnarmála með því að veita þeim undanþáguheimild (e. national escape clause) frá fjármálareglum ESB og þar með stöðugleikamarkmiðunum. Skilyrðin eru að útgjöldin falli undir flokk varnarmála og séu að hámarki 1,5% af vergri landsframleiðslu á ári í fjögur ár. Í öðru lagi er lagt til að fjármögnunarleiðin SAFE verði sett á fót, sbr. áðurnefnda tillögu að nýrri reglugerð ráðsins, sem mun greiða fyrir lánveitingum til aðildarríkjanna til frekari fjárfestinga á sviði varnarmála. Í þriðja lagi er lagt til að útvíkka lánasvið Evrópska Fjárfestingabankans og evrópsku fjárfestingabankasamstæðunna (e. European Investment Bank Group) og heimila henni að veita lán til varnar- og öryggisverkefna. Þá er einnig stefnt að því að örva fjárfestingar einkaaðila, sbr. umfjöllun hér að neðan um nýja stefnumótun fyrir sparnaðar- og fjárfestingasamband ESB (e. savings and investments union strategy) sem birt var sama dag og hvítbókin.

SAFE stendur fyrir Security Action for Europe og leggur framkvæmdastjórnin til að hún hafi milligöngu, á grundvelli væntanlegrar SAFE-reglugerðar, um allt að 150 milljarða evru lánveitingu til aðildarríkjanna sem ESB ábyrgist. Af þeim sökum verða vextir á lánum sem veitt eru á grundvelli þessarar fjármögnunarleiðar hagstæðari en þau kjör sem mörgum aðildarríkjanna bjóðast. Þá verður hægt að veita lán til verkefna tengdum innkaupum Úkraínu og EFTA-ríkjanna innan EES og fjárfesta í iðnaði Úkraínu og EES/EFTA-ríkjanna á grundvelli þessarar fjármögnunarleiðar en a.m.k. eitt aðildarríki ESB verður þó að vera þátttakandi í slíkum verkefnum. SAFE fjármögnunarleiðin byggist á sambærilegum fjármögnunarleiðum og framkvæmdastjórnin bauð aðildarríkjum sínum og EES/EFTA-ríkjunum í Covid-heimsfaraldrinum en í raun nýtist þessi leið fyrst og fremst þeim aðildarríkjum sem ekki bjóðast jafn góð lánskjör og ESB. Þess vegna er þetta ekki fýsilegur kostur fyrir ríki á borð við Þýskaland sem bjóðast betri lánskjör en ESB. Þá er óvíst að hvaða marki þessi leið skapi hvata fyrir aðildarríkin til frekari fjárfestinga í hernaðaruppbyggingu.

Markmið ofangreindra tillagna er eigi að síður að stórefla bæði innkaup á hergögnum og öðrum varnartengdum búnaði og hergagnaiðnað innan ESB í því augnamiði að Evrópuríkin geti í vaxandi mæli staðið á eigin fótum. Í dag flytja Evrópuríki stærstan hluta af þeim hergögnum og hernaðartækni sem þau nota frá Bandaríkjunum. Í hvítbókinni er jafnframt að finna tillögur um hvernig efla megi hergagnaiðnaðinn innan ESB en í dag er framleiðsla á hergögnum innan sambandsins enn of dreifð þar sem framleiðendur sinna fyrst og fremst sínum eigin heimamarkaði. Í hvítbókinni er því lagt til að ESB beiti sér fyrir því að styrkja framleiðslugetu evrópskra hergagnaframleiðenda, tryggja aðgengi þeirra að nauðsynlegum hráefnum, einfalda regluverk og draga úr skriffinnsku, styrkja rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði og stuðli þannig að því að koma á fót eiginlegum innri markaði með hergögn og annan varnarbúnað.

Aukinn stuðningur við Úkraínu

Í hvítbókinni er lögð áhersla á mikilvægi þess að ESB haldi áfram dyggum stuðningi við Úkraínu, enda muni hugsanlegt vopnahlé engu breyta um brýna þörf Úkraínu fyrir frekari vopnabúnað og varnarkerfi. Úkraína þurfi að hafa getu til þess að forða frekari árásum til að stuðla megi að varanlegum friði í landinu. Í þessu skyni er lagt til í hvítbókinni að ESB haldi áfram hernaðaraðstoð sinni við Úkraínu, m.a. með því að halda áfram að sjá Úkraínu fyrir skotfærum fyrir stórskotaliðsbúnað, styrkja loftvarnakerfi Úkraínu, m.a. með drónaloftförum, og halda áfram að styðja við þjálfun og búnað herafla Úkraínu. Jafnframt er lagt til að halda áfram stuðningi við hergagnaiðnað í Úkraínu. Samhliða þessu þarf að gefa Úkraínu færi á að taka frekari þátt í samstarfi ESB á sviði varnarmála.

Samstarf við önnur ríki og alþjóðastofnanir styrkir sameiginlegt öryggi

Í hvítbókinni er lögð rík áhersla á mikilvægi samstarfs ESB við önnur ríki og alþjóðastofnanir til þess að styrkja sameiginlegt öryggi Evrópu. Í því samhengi er mikilvægi Atlantshafsbandalagsins (NATO) fyrir sameiginlegt öryggi aðildarríkja þess áréttað og að samstarf ESB og NATO sé ómissandi stoð í öryggi Evrópu. Einnig eru nefnd helstu samstarfsríki ESB á sviði varnar- og öryggismála, þ.m.t. Ísland.

Hvítbókin var á meðal helstu umræðuefna á fundi leiðtogaráðs ESB sem fram fór í gær sbr. stutta umfjöllun hér að neðan.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Leiðtogaráð ESB kom saman í gær til reglulegs fundar og voru fjölmörg mikilvæg mál til umfjöllunar á fundinum, svo sem málefni Úkraínu, málefni Austurlanda nær, samkeppnishæfni ESB, stefnumótun um langtíma fjármálaáætlun fyrir árin 2028 – 2035, málefni flótta- og farandfólks og margt fleira og síðast en ekki síst varnarmál samanber framangreinda umfjöllun.

Sjá nánar um niðurstöður fundarins hér.

Sparnaðar- og fjárfestingasamband ESB

Framkvæmdastjórn ESB hefur birt boðaða stefnumótun um sparnaðar- og fjárfestingasamband ESB (e. Savings and Investment Union, SIU). Stefnan hefur það að markmiði að stuðla að því að fjármálakerfi ESB beini sparnaði í auknum mæli í arðbærar fjárfestingar, t.a.m. með því að bæta aðgengi að fjármagnsmörkuðum ESB og bjóða upp á fleiri og betri fjármögnunarkosti fyrir fyrirtæki. Er talið að þetta geti bæði aukið auðlegð borgaranna og um leið ýtt undir hagvöxt og aukna samkeppnishæfni innri markaðar ESB.

Með SIU er leitast við að búa til fjármögnunarumhverfi sem styður við auknar fjárfestingar á sviðum sem forgangsraðað er í stefnumótun ESB. Eins og kemur fram í leiðarvísi ESB um aukna samkeppnishæfni, sem fjallað var um í Vaktinni 31. janúar sl., þarf ESB umtalsvert fjármagn til að takast á við þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir nú um stundir, s.s. vegna loftslagsbreytinga, hraðra tæknibreytinga og breytinga í hinu alþjóðlega umhverfi. Mario Draghi mat árlega viðbótarfjárfestingarþörf ESB í þessu samhengi upp á 750-800 milljarða evra, en um skýrslu hans var fjallað ítarlega í Vaktinni 13. september sl. Frá því að skýrsla Draghi kom út hefur fjárfestingarþörfin aukist enn frekar með stóraukinni áherslu á öryggis- og varnaruppbyggingu í ESB, sbr. umfjöllun hér að framan um hvítbók um varnarmál og áætlanir um endurvopnun Evrópu. Lítil og meðalstór fyrirtæki (SME) og nýsköpunarfyrirtæki eru stór hluti af þeim aðilum sem taldir eru í þörf fyrir viðbótarfjármögnun en þessi fyrirtæki geta oft á tíðum ekki eingöngu reitt sig á bankafjármögnun. Með samþættum fjármagnsmörkuðum og samþættu bankakerfi er markmiðið að tengja saman sparnað og fjárfestingarmöguleika og -þarfir á skilvirkari hátt en verið hefur.

Bankainnstæður í ESB nema um 10 billjónum evra. Bankainnstæður eru öruggar og aðgengilegar, en þær skila venjulega lægri ávöxtun en fjárfestingar á fjármagnsmörkuðum. Stefnunni um SIU er þannig ætlað að styðja við hagsæld sparifjáreiganda í ESB með því að auka úrval og fjölga tækifærum til betri ávöxtunar með aukinni þátttöku þeirra á fjármagnsmörkuðum.

Á sama tíma styður aukið hlutfall einkasparnaðar sem nýtt er til fjárfestinga á fjármagnsmörkuðum við raunhagkerfið og gerir fyrirtækjum í ESB kleift að vaxa og dafna, sérstaklega á þeim sviðum sem ESB hefur skilgreint sem stefnumarkandi, s.s. á sviði nýsköpunar, afkolunar og öryggismála.

Stefnunni er skipt í eftirfarandi fjóra þætti:

  • Borgara og sparnað, þar sem lögð er áhersla á aðgerðir til að auka þátttöku einstaklinga á fjármagnsmörkuðum og leiðir til efla viðbótarlífeyrissparnað einstaklinga.
  • Fjárfestingu og fjármögnun, þar sem lögð er áhersla á auknar fjárfestingar í hlutabréfum og ákveðnum óhefðbundnum eignaflokkum og fjölga leiðum fyrir fjárfesta til að losa um fjárfestingar sínar, t.d. með því að gera skráningu fyrirtækja á markaði auðveldari og með breytingum á skattalöggjöf sem þykir í dag hygla lántöku af hálfu fyrirtækja á kostnað útgáfu hlutafjár.
  • Samþættingu og stærðarhagkvæmni, þar sem lögð er áhersla á stærðarhagkvæmni með sameiningu fjármálainnviða í aðildararíkjunum og dýpri eignastýringarmarkaði.
  • Skilvirkt eftirlit á innri markaðnum, þar sem eftirlitsstjórnvöld í aðildarríkjum og í ESB verða hvött til þess að einfalda eftirlit eins og mögulegt er, auk þess sem leitað verður leiða til að ýta undir einsleitni eftirlits á fjármagnsmarkaði í ESB, m.a. með því að færa ákveðna þætti eftirlitshlutverksins til eftirlitsstofnana ESB.

Mikilvægur þáttur í SIU er aukin samkeppnishæfni og einsleitni á bankamarkaði þar sem mikilvægi samræmds regluverks (e. single rulebook) er undirstrikað og leggur framkvæmdstjórnin í því samhengi áherslu á að árangri verði náð í endurskoðun á lagaumhverfi evrópskra viðskiptabanka m.a. að því er varðar greiðsluvanda fjármálafyrirtækja og innstæðutryggingar, en um fyrirliggjandi tillögur í þeim efnum var fjallað í Vaktinni 21. apríl 2023.

Á öðrum ársfjórðungi 2027 hyggst framkvæmdastjórn ESB leggja mat á framvindu mála samkvæmt stefnunni.

Aðgerðaáætlun um samkeppnishæfni og afkolun í stál- og málmiðnaði í ESB

Framkvæmdastjórn ESB birti hinn 19. mars sl. aðgerðaáætlun til að styðja aukna framleiðslugetu í stál- og málmiðnaði innan sambandsins. Markmiðið með áætluninni er að styrkja samkeppnishæfni geirans og verja framtíð iðnaðargeirans innan ESB. Aðgerðaáætlunin tengist náið hreinatvinnustefnu ESB (e. Clean Industrial Deal) og aðgerðaáætlun um orku á viðráðanlegu verði (e. Action Plan for Affordable Energy), sbr. umfjöllun Vaktarinnar 7. mars sl. um þau mál.

Í aðgerðaáætluninni kemur fram að stáliðnaður ESB sé undirstöðuatvinnugrein sem sér mikilvægum geirum fyrir hráefnum eins og bíliðnaði, hreinorkutækniiðnaði og hergagnaiðnaði. Sterkur stál- og málmiðnaður skipti sköpum fyrir öryggi ESB og þá sérstaklega í ljósi núverandi stöðu í alþjóðamálum. Áætlunin hefur einnig skýra tengingu við hvítbók framkvæmdastjórnar ESB um varnarmál sem fjallað er um hér að framan í Vaktinni.

Stál- og málmiðnaður í ESB er á krossgötum um þessar mundir vegna hás orkukostnaðar, ósanngjarnrar samkeppni erlendra keppinauta og mikilla  fjárfestingaþarfa til að ná markmiðum um minni kolefnislosun. Aðgerðaáætlunin er sett fram á sama tíma og iðnaðurinn stendur frammi fyrir markaðsröskunum erlendis frá sem knúinar eru áfram með óréttmætum ríkisstyrkjum og tollum á stál og ál.

Lykilaðgerðir áætlunarinnar eru eftirtaldar:

  • Orkuöryggi og orka á viðráðanlegu verði

    Stál- og málmiðnaður er afar orkufrekur iðnaður og er hlutfall orkukostnaðar í framleiðslukostnaði hærri þar en í öðrum geirum. Aðgerðaáætluninni er ætlað að styðja við gerð orkukaupasamninga (e. Power Purchase Agreements) ásamt því að hvetja aðildarríkin til að notfæra sér svigrúm í álagningu orkuskatta og lækkun gjalda sem tæki til að jafna út verðsveiflur í raforkuverði. Jafnframt miðar áætlunin að því að styðja við betri og afkastameiri aðgang að dreifikerfi orku fyrir orkufrekan iðnað og aukna notkun endurnýjanlegar orku og lágkolefnaorku í geirunum.

  • Komið í veg fyrir kolefnisleka

    Regluverk ESB um kolefnisjöfnunargjald við landamæri (e. Carbon Border Adjustment Mechanism - CBAM) verður notað til að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði, sbr. til hliðsjónar ítarlega umfjöllun í Vaktinni 23. júní 2023, um CBAM-regluverkið og greiningu á mögulegum áhrifum þess á Íslandi. Er talið að regluverkið geti komið í veg fyrir svokallaðan „grænþvott“ málma sem framleiddir eru utan ESB og látnir eru líta út fyrir að vera lágkolefna málmar. Þá hyggst framkvæmdastjórn ESB gefa frá sér orðsendingu á þessu ári um þann vanda sem tengist útflutningi vara, sem falla undir CBAM-regluverkið, og svonefndum kolefnisleka.

  • Áskoranir vegna alþjóðlegrar umframframleiðslugetu

    Talið er að alþjóðleg umframframleiðslugeta (e. global overcapacity) ógni samkeppnishæfni stál- og málmiðnaðar í ESB. Nú þegar hefur ESB gert ráðstafanir á sviði viðskiptavarna (e. trade defense measures) til að sporna við óréttmætri samkeppni á sviði stál-, ál- og járnblendisframleiðslu, en staðan á mörkuðum með þessi efni hefur samt enn verið að versna. Framkvæmdastjórn ESB hyggst því á þessu ári grípa til frekari aðgerða til að verja iðnaðinn í ESB. 

  • Stuðningur við hringrásarhagkerfið

    Talið er að hringrásarhagkerfið og hringrás málma muni skipta höfuðmáli við að draga úr losun kolefnis á þessu sviði iðnaðar, sem og á öðrum framleiðslusviðum, og hyggst framkvæmdastjórn ESB beita sér á því sviði með ýmsum aðgerðum.

  • Áhættudreifing vegna afkolunar

    Löggjafartillaga um hröðun á afkolun í iðnaði (e. Industrial Decarbonisation Accelerator Act) sem boðuð hefur verið á grunni hreinatvinnustefnu ESB, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 7. mars sl. um þá stefnu, mun innihalda skilyrði um viðnámsþrótt og sjálfbærni fyrir evrópska framleiðslu með breytingum á reglum um opinber innkaup til að styðja við aukna eftirspurn eftir lág-kolefna málmum sem framleiddir eru í ESB. Framkvæmdastjórn ESB hyggst jafnframt styðja við framangreint með ýmsum fjárhagslegum ráðstöfunum. 

  • Verndun hágæða iðnstarfa

Nærri 2,6 milljónir starfa tengjast stál- og málmiðnaði í ESB. Samkvæmt aðgerðaáætluninni hyggst framkvæmdastjórnin sérstaklega huga að símenntun og réttindum starfsfólks í þessum geira, svo sem vikið er að í hreinatvinnustefnu ESB og í nýrri stefnumótun um aukna færni vinnuafls (e. Union of Skills), en þau mál var fjallað um í Vaktinni 7. mars sl. eins og áður segir.

Styttri uppgjörstími í verðbréfaviðskiptum

Þann 12. febrúar sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu um breytingu á reglugerð um verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar (CSDR) þar sem lagt er til að uppgjörstími í verðbréfaviðskiptum verði styttur, þ.e. viðskiptum með hlutabréf og skuldabréf á verðbréfamörkuðum í ESB. Almennt er miðað við að verðbréfaviðskipti séu gerð upp tveimur dögum eftir að viðskiptabeiðnin er lögð fram (T+2) en nú er stefnt að því að þau verði gerð upp einum degi eftir (T+1).

Uppgjörstími verðbréfaviðskipta í ESB er ákvarðaður í áðurnefndri CSDR-reglugerð og eru núgildandi reglur um uppgjörstímabilið T+2 frá árinu 2015 en síðan þá hafa fjármálamarkaðir þróast umtalsvert og tæknimálum fleygt fram og var staðan á heimsvísu sú í október 2024 að uppgjörstíminn var T+1 í 60% viðskipta. Þar sem sífellt fleiri markaðir gera upp m.v. T+1 regluna þykir mikilvægt að ESB uppfæri sín viðmið til samræmis til að dragast ekki aftur úr að þessu leyti og til að draga úr kostnaði í kerfinu.

Um þessa breytingu er ekki fjallað í stefnu um sparnaðar- og fjárfestingasambandið, sem fjallað er um hér á undan, en í kynningum framkvæmdastjórnarinnar á breytingunni er hún engu að síður sögð mikilvægur hlekkur í þeirri stefnu.

Stefnt er að því að breytingin taki gildi í ESB í október 2027.

Tillagan er nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Sameiginlegt evrópskt endursendingarkerfi

Líkt og fjallað var um í Vaktinni 7. mars, 31. janúar og 25. október sl. hefur umræða um endursendingar einstaklinga í ólögmætri dvöl verið í brennidepli á vettvangi ESB undanfarin misseri og hefur það verið eitt af forgangsmálum nýrrar framkvæmdastjórnar og Schengen-ráðsins að finna leiðir til að bæta endursendingarkerfin og auka skilvirkni þeirra. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leiða einungis um 20% brottvísunarákvarðana á Schengen-svæðinu í reynd til endursendinga og því er álitið að veruleg þörf sé á umbótum. Skilvirkt endursendingarkerfi er almennt talið lykilforsenda þess að unnt sé að reka trúverðuga fólksflutningastefnu auk þess sem endursendingarkerfið er álitið lykilþáttur í landamærastefnu sambandsins.

Með hliðsjón af framangreindu lagði framkvæmdastjórn ESB, hinn 11. mars sl., fram löggjafartillögu um nýtt sameiginlegt evrópskt endursendingarkerfi. Tillögunni, sem er í formi reglugerðar, er ætlað að koma í stað gildandi brottvísunartilskipunar ESB (e. Return Directive) frá árinu 2008 sem hefur verið innleidd í íslenska löggjöf á grundvelli Schengen-samstarfsins. Markmið tillögunnar er að auka skilvirkni og einfalda málsmeðferð við endursendingar á fólki í ólögmætri dvöl og samhæfa regluverk aðildarríkja í þessum efnum. Litið er svo á að tillagan feli í sér lykilþátt í nýju regluverki ESB um málefni flótta- og farandfólks (e. Pact on Migration and Asylum) sem samþykkt var í júní 2024 og á að koma til framkvæmda í júní 2026, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 25. október, 28. júní og 19. janúar 2024.

Með tillögunni er eftirfarandi m.a. lagt til:

  • Að komið verði á fót almennu sameiginlegu evrópsku endursendingarkerfi sem komi í stað gildandi tilskipunar sem þykir hafa leitt af sér mismunandi kerfi í aðildarríkjunum. Markmið tillögunnar, sem eins og áður segir er í formi reglugerðar, er að samræma regluverk og framkvæmd á milli aðildarríkjanna á þessu sviði.
  • Að innleiddar verði reglur um gagnkvæma viðurkenningu brottvísunarákvarðana sem geri aðildarríkjunum kleift að viðurkenna og framkvæma brottvísunarákvarðanir annars aðildarríkis án þess að hefja nýtt brottvísunarferli. Fyrir 1. júlí 2027 hyggst framkvæmdastjórn ESB síðan kanna hvort aðildarríkin hafi komið sér upp viðeigandi fyrirkomulagi til að framfylgja evrópskum brottvísunarákvörðunum og í framhaldi af því er gert ráð fyrir því að gagnkvæm viðurkenning brottvísunarákvarðana og framkvæmd þeirra verði skyldubundin.
  • Að settar verði skýrar reglur um endursendingar í fylgd lögreglu, um leið og innbyggður verður aukinn hvati til sjálfviljugrar brottfarar. Flutningur í fylgd lögreglu verður gerður að skyldu þegar einstaklingur í ólögmætri dvöl sýnir ekki samstarfsvilja við framkvæmd brottvísunarákvörðunar, lætur sig hverfa til annars aðildarríkis eða fer ekki sjálfviljugur af landi brott innan tilgreinds frests eða ef ólögmæt dvöl af hans hálfu er talin fela í sér öryggisógn. Er álitið að skýrari reglur um þvingaðan flutning muni hvetja einstaklinga til sjálfviljugrar brottfarar innan tilgreinds frests.
  • Að lagðar verði auknar skyldur á einstaklinga til að sýna samstarfsvilja við brottvísunarferlið og kveðið á um afleiðingar geri hann það ekki, svo sem með lækkun eða synjun fjárhagsaðstoðar eða haldlagningu ferðaskilríkja. Samhliða þessu verða hvatar til að sýna samstarf auknir, þ. á m. með auknum stuðningi við sjálfviljuga brottför.
  • Að lögð verður aukin áhersla á að allar ráðstafanir við endursendingar séu í fullu samræmi við grundvallarmannréttindi og alþjóðleg viðmið. Þetta verður tryggt með skýrum ferlum, svo sem með rétti til að áfrýja, stuðningi við viðkvæma einstaklinga og sérstökum verndarráðstöfunum fyrir börn og fjölskyldur ásamt því að fylgja meginreglunni um að vísa fólki ekki á brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement).
  • Að settar verði strangari reglur til að koma í veg fyrir misnotkun kerfisins og að einstaklingar láti sig hverfa. Í þessu skyni er lagt til að aðildarríkin fái auknar heimildir til að staðsetja einstaklinga sem hafa fengið á sig ákvörðun um brottvísun, m.a. með því að krefjast fjárhagslegra trygginga, reglulegra skýrslugjafar eða með því að skylda viðkomandi til að halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði. Með tillögunni eru einnig lagðar til skýrar reglur um heimildir fyrir vistun einstaklinga í brottfararúrræðum (e. detention) ef hætta er talin á að einstaklingur muni láta sig hverfa. Lagt er til að vistun í brottfararúrræðum geti varað í allt að 24 mánuði í stað 18 mánaða samkvæmt gildandi tilskipun. Þá er í tillögunni opnað fyrir möguleika á öðrum vægari úrræðum. Loks er lagt til að frestun réttaráhrifa brottvísunarákvarðana, ef þær eru kærðar, verði ekki lengur sjálfvirk nema það séu uppi álitaefni tengd fyrrgreindri meginreglu um non-refoulement.
  • Að settar verði sérstakar reglur fyrir einstaklinga sem taldir eru ógn við allsherjarreglu og innra öryggi. Sé það mat stjórnvalda að einstaklingur feli í sér slíka ógn, en um slíkt matsferli er kveðið sérstaklega, er lagt til að strangari reglur skuli gilda, m.a. um skyldu til flutnings í fylgd lögreglu, um lengra endurkomubann og um vistun viðkomandi í brottfararúrræðum. Þá verður unnt að framlengja slíka vistun umfram fyrrgreinda 24 mánuði.
  • endursendingarbeiðnir verði hluti af brottvísunarferlinu. Til að brúa bilið á milli brottvísunarákvörðunar og raunverulegrar brottfarar viðkomandi er gert ráð fyrir að endursendingarbeiðni (e. readmission request) verði sjálfkrafa sett í farveg í kjölfar ákvörðunar. Þá heimilar tillagan flutning gagna (e. data transfers) til þriðju ríkja til að greiða fyrir endursendingum.
  • Að heimilt verði að senda einstaklinga sem fengið hafa endanlega ákvörðun um brottvísun í svonefndar endursendingarmiðstöðvar (e. return hubs) í þriðju ríkjum á grundvelli tvíhliða samninga eða samninga sem ESB hefur gert. Slíkir samningar verði aðeins gerðir við ríki sem virða alþjóðleg mannréttindi og lög, þ. á m. fyrrgreinda meginreglu um non-refoulement. Fjölskyldur með börn og fylgdarlaus börn eru undanskilin auk þess sem framkvæmd slíkra samninga verður háð eftirliti.

Sjá nánari reifun á málinu og forsögu þess í umfjöllun hugveitu Evrópuþingsins.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Löggjöf um mikilvæg lyf

Framkvæmdastjórn ESB birti 11. mars sl. tillögu að löggjöf um mikilvæg og lífsnauðsynleg lyf (e. critical medicines act).

Fjallað var stuttlega um málið í Vaktinni 14. febrúar sl., í tengslum við opið samráð um efni tillögunnar sem framkvæmdastjórnin efndi til.

Tillagan hefur verið á meðal forgangsmála hjá framkvæmdastjórninni um nokkurt skeið og var framlagning hennar á meðal þeirra mála sem ný framkvæmdastjórn einsetti sér að klára á fyrstu 100 starfsdögum sínum. Lyfjaskortur hefur verið vaxandi áhyggjuefni meðal aðildarríkja ESB á umliðnum misserum og hefur margvíslegum aðgerðum gegn lyfjaskorti og auknu afhendingaröryggi lyfja þegar verið hrint í framkvæmd bæði til lengri og skemmri tíma, sbr. umfjallanir um aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar í þeim efnum í Vaktinni  27. október 202319. janúar 2024 og 3. maí 2024. Þar er m.a. að finna umfjöllun um útgáfu lista yfir mikilvæg lyf (e. Union List of Critical Medicines) og um bandalag gegn skorti mikilvægra lyfja (e. Critical Medicines Alliance) sem Lyfjastofnun er nú aðili að.

Löggjafartillagan er þáttur í framangreindri viðleitni til að vinna gegn skorti á mikilvægum lyfjum og byggja upp og standa vörð um mikilvæga innviði sem tryggja sjálfbærni og sjálfstæði Evrópu er kemur að framleiðslu og framboði nauðsynlegra lyfja og innihaldsefna þeirra. Tillagan er að mati framkvæmdastjórnarinnar einn af meginþáttunum í því að ná markmiðum sem lýst er í leiðarvísi ESB um aukna samkeppnishæfni (e. Competitiveness Compass), en þar er lyfjageiranum ætlað stórt hlutverk, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 31. janúar 2025 um leiðarvísinn.

Tillagan er viðbót við fyrirliggjandi tillögur um endurskoðun mannalyfjalöggjafar ESB, sbr. umfjöllun um þær tillögur í Vaktinni 5. maí 2023.

Við lokafrágang tillögunnar var sérstaklega horft til stefnuskýrslu frá áðurnefndu bandalagi gegn skorti mikilvægra lyfja (e. critical medicines alliance) sem birt var 28. febrúar sl. en skýrslan hefur að geyma ráðleggingar um hvernig tryggja megi aðfangakeðjur og afhendingaröryggi mikilvægra lyfja.

Samhliða tillögunni voru kynntar uppfærðar leiðbeiningar um ríkisaðstoð til að aðstoða aðildarríki við fjármögnun verkefna af því tagi sem hér eru undir.

Tillagan felur í sér eftirfarandi áherslur:

  • Að styrkja framleiðslugetu ESB á sviði mikilvægra lyfja með stefnumiðuðum verkefnum (e. strategic projects).
  • Að nýta opinber innkaup til að tryggja áreiðanlegri aðfangakeðjur mikilvægra lyfja og bæta aðgengi að öðrum lyfjum.
  • Að styðja við sameiginleg innkaup ESB-ríkja (e. collaborative procurement) til að tryggja sanngjarnan aðgang allra ríkja að mikilvægum lyfjum innan ESB.
  • Að efla samstarf við líkt þenkjandi ríki í því skyni að styrkja aðfangakeðjur og auka óhæði gagnvart einum eða takmörkuðum fjölda birgja.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Hreinatvinnustefna ESB og ríkisstyrkjareglur – opið samráð

Framkvæmdastjórn ESB hefur auglýst opið samráð um drög að nýrri orðsendingu um ríkisstyrki og ríkisstyrkjareglur sem ætlað er að styðja við framgang hreinatvinnustefnu ESB (e. The Clean Industrial Deal), sbr. umfjöllun Vaktarinnar 7. mars sl. um þá stefnu.

Miðar ný stefnumörkun að því að leggja grunn að einföldun regluverks við veitingu ríkisstyrkja á tilteknum sviðum, þ.e. á sviði:

  • aðgerða sem miða að því að flýta fyrir útbreiðslu endurnýjanlegrar orku,
  • aðgerða sem miða að því að flýta fyrir afkolun í iðnaði,
  • aðgerða sem miða að því að tryggja nægilega framleiðslugetu í hreinni tækni og
  • ráðstafana sem miða að því að draga úr áhættu einkafjárfesta við fjárfestingar á framangreindum sviðum.

Umsagnarfrestur er til 25. apríl nk. og er hægt að nálgast nánari upplýsingar um samráðið hér.

Nýr vegvísir um jafnrétti kynjanna

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna birti framkvæmdastjórn ESB  nýjan vegvísi um jafnrétti kynjanna hinn 7. mars sl.

Mikið hefur áunnist í jafnréttismálum á síðustu árum eins og rakið var í Vaktinni 7. mars sl. Nýjum vegvísi er ætlað varða leiðina fram á veg næstu fimm árin.

Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórn ESB um málið segir meðal annars að jafnrétti kynjanna séu grundvallarréttindi og grundvallargildi sem hafi verið bundin í lög ESB allt frá gerð Rómarsáttmálans árið 1957. Jafnrétti kynjanna og kvenréttindi stuðla að félagslegu réttlæti, styðja við lýðræði og stuðla að öflugum og samkeppnishæfum hagkerfum þar sem  styrkleikar allra íbúa eru nýttir til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.

Í vegvísinum er áhersla lögð á eftirfarandi atriði: 

  • Baráttu gegn hvers konar kynbundnu ofbeldi og kynferðisofbeldi og stuðning við þolendur ofbeldis, sbr. tilskipun um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldisem var samþykkt sl. vor.
  • Bættu aðgengi kvenna að getnaðarvörnum og heilbrigðisþjónustu og eflingu kvenlægra rannsókna, greininga og meðferða.
  • Jöfnun launa og fjárhagslega valdeflingu kvenna.
  • Jafnvægi milli vinnu og einkalífs með því að stuðla að jafnri umönnunarbyrði á heimili milli kvenna og karla.
  • Jöfn atvinnutækifæri og viðunandi vinnuaðstæður, með því að draga úr mun á atvinnuþátttöku kynjanna og koma í veg fyrir kynferðislegt áreiti á vinnustöðum og tryggja jöfn tækifæri kynjanna til starfsframa.
  • Vandaða menntun án aðgreiningar, meðal annars með því að stuðla að jafnvægi kynjanna á öllum skólastigum og hvetja stúlkur til náms í STEM greinum og pilta til náms í mennta-, heilsu- og umönnunargreinum. Þegar hefur verið kynnt áætlun í þessum efnum, þ.e. aðgerðaráætlun um menntun í stærðfræði, tæknigreinum, raunvísindum og nýsköpun (STEM Education Strategic Plan, sbr. umfjöllun í Vaktinni 7. mars sl.
  • Jafna þátttöku kynjanna í stjórnmálastarfi og opinberu lífi.
  • Bætta stjórnsýslu jafnréttismála, sbr. nýjar tilskipanir um stjórnsýslu jafnréttismála þar sem settur var skýrari rammi um stöðu, hlutverk og valdsvið jafnréttisstofnana sem aðildarríkjum ESB er skylt að starfrækja (e. equality bodies). Fjallað var um tilskipanirnar í Vaktinni 19. janúar 2024 og 23. júní 2023.

Öryggi sæstrengja

Framkvæmdastjórn ESB gaf nýverið út orðsendingu um öryggi og viðnámsþol sæstrengja bæði innan einstakra aðildarríkja og á vettvangi ESB heildstætt.

Áhersluatriði í orðsendingunni eru eftirfarandi:

  • fyrirbyggjandi aðgerðir,
  • greiningargeta,
  • ·viðbragðsgeta og endurheimt og
  • fælingarmáttur

Sjá nánar hér um efni orðsendingarinnar.

Óformlegur fundur samgönguráðherra ESB

Óformlegur fundur samgönguráðherra ESB fór fram í Varsjá í Pólandi dagana 17. – 18. mars sl. en Pólverjar fara um þessar mundir með formennsku í ráðherraráði ESB. Var samgönguráðherrum EFTA-ríkjanna einnig boðið til fundarins og sótti Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra fundinn fyrir hönd Íslands. Fundinum var skipt upp í tvær fundarlotur. Það er tímanna tákn að í fyrri lotunni var fjallað um hlutverk samgönguinnviða með tilliti til landvarna og í síðari lotunni var rætt um mikilvægi netöryggis í upplýsingakerfum samgangna.

Tvíþætt hlutverk samgönguinnviða (Dual use)

Í umræðum um þýðingu samgönguinnviða fyrir landvarnir kom fram að við breyttar aðstæður í heimsmálunum væri mikilvægt að horfa til hlutverks samgönguinnviða með tilliti til landvarna. Fram kom að við fjárfestingu í samgönguinnviðum þyrfti að gæta að burðarþoli vega og brúa, breidd farartækja sem um vegina geti farið, burðarþoli járnbrautarvagna o.s.frv. Þá yrði að gæta að forgangsröðun og leita  skilvirkra leiða við fjárfestingarnar svo sem með sameiginlegum útboðum. Fundarmenn ræddu mikilvægi þess að innviðir og kerfi fylgdu stöðlum sem væru samhæfð yfir landamæri.

Í máli innviðaráðherra undir þessum dagskrárlið upplýsti hann um aðstæður á Íslandi í þessum efnum og að hafin væri uppbygging á Keflavíkurflugvelli og í Helguvík sem þjónaði hvoru tveggja í senn, borgaralegu hlutverki auk þess sem hún nýttist fyrir varnir landsins.

Netöryggi upplýsingakerfa samgangna

Í seinni lotunni voru netöryggismál upplýsingakerfa samgangna rædd. Fram kom að upplýsingakerfi samgönguinnviða hefðu víða orðið fyrir netárásum og í einhverjum tilvikum hefði tekist að brjótast í gegnum varnir kerfanna og valda tjóni. Í einu tilviki tókst þrjótum að brjótast inn í umferðastýringarkerfi með þeim afleiðingum að það varð óvirkt í nokkra daga. Ríkin þyrftu að standa saman, vanda innleiðingu á netöryggislöggjöf ESB.

Í máli innviðaráðherra kom fram að mikil áhersla væri lögð á öryggi upplýsingakerfa samgangna og fjarskipta á Íslandi. Ísland bæri ábyrgð á stjórnun flugumferðar á Norður-Atlantshafi á svokölluðu NAT svæði. Flug væri að auki, eðli málsins samkvæmt, mikilvægasti samgöngumátinn vegna samskipta við útlönd og því í forgangi að netöryggi væri tryggt í þeim upplýsingakerfum sem þjónaði flugsamgöngum. Þá vék Eyjólfur einnig að því að unnið væri að því að koma upp varaleið fyrir mikilvægustu fjarskiptin, þ.m.t. flugfjarskiptin, ef sú ólíklega staða kæmi upp að öll samskipti um sæstrengi rofnuðu.

Tvíhliða fundir ráðherra

Í fundarhléi átti innviðaráðherra ýmsa tvíhliða fundi meðal annars með ráðherrum Noregs, Danmerkur, Spánar og Frakklands. Á þessum fundum óskað ráðherra m.a. eftir stuðningi ríkjanna við aðild Íslands að loftferðasamningum ESB. Auk þess sem hann fór yfir áhyggjur Íslands af þróun mála varðandi viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fyrir flug (ETS-kerfið).

Óformlegur fundur vísinda- og nýsköpunarráðherra ESB

Óformlegur fundur vísinda- og nýsköpunarráðherra ESB fór fram í Varsjá dagana 10. - 11. mars sl. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Tvö meginviðfangsefni voru til umfjöllunar á fyrri hluta fundarins: annars vegar um væntanlega stefnumótun um sprota- og vaxtarfyrirtæki (e. Startups and Scaleups) og hins vegar stefnumótandi hlutverk þeirrar vinnu sem nú á sér stað við undirbúning fyrir næsta áætlunartímabil samstarfsáætlana ESB, fyrir árin 2028 – 2034, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 31. janúar 2025 um EES/EFTA-álit um þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í samstarfsáætlunum á nýju tímabili.

Samhljómur var um mikilvægi þess að auka þyrfti fjármagn til rannsókna og nýsköpunarstarfs og að einfalda regluverk á þeim sviðum. Öflugt rannsóknarstarf og nýsköpun væru grundvöllur aukinnar samkeppnishæfni og að stefnumótun á því sviði þyrfti að eiga sér stað í nánu samstarfi við fyrirtækin sjálf og tók Logi Einarsson undir þau sjónarmið.

Á síðari hluta fundarins var rætt um framtíðarhlutverk samstarfsáætlana ESB og hvernig þær gætu styrkt langtímasamkeppnishæfni ESB. Margir vísuðu í skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB til framtíðar en í skýrslunni er bent á að Evrópa hafi dregist aftur úr á þessu sviði og bent á tillögur að aðgerðum til úrbóta, sjá nánar um skýrsluna í umfjöllun Vaktarinnar 13. september sl.

Í lok fundarins var svonefnd Varsjáryfirlýsing um stefnumótandi hlutverk næstu rannsókna- og nýsköpunaráætlana ESB samþykkt.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta