Hoppa yfir valmynd
25. mars 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Bólusetning boðin gegn RS veiru fyrir yngstu börnin

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur heimilað sóttvarnalækni að ganga til kaupa á mótefni við RS-veiru (Beyfortus) til tveggja ára. Bólusetning með efninu verður boðin fyrir 4.500 ungbörn næsta vetur og einnig 2026-2027. RS-veiran er algeng öndunarfæraveira sem gengur í stórum faröldrum yfir vetrartímann og leggst einkum þungt á börn á fyrsta aldursári.

Hingað til hafa aðeins fyrirburar og börn með tiltekin alvarleg heilsufarsvandamál átt kost á forvörn gegn RS veiru, til að verja þau viðkvæmustu fyrir alvarlegum veikindum. Faraldrar RS veiru ganga oft yfir samtímis árlegum inflúensufaraldri og fylgir því gjarna mikið álag á heilbrigðiskerfið. Sýkingar af völdum veirunnar er algengasta ástæða innlagna barna á sjúkrahús um alla Evrópu. Hér á landi hefur innlögnum fjölgað undanfarin ár og eru langflest þeirra barna sem leggjast inn á fyrsta aldursári. Í verstu tilvikum verða börn svo alvarlega veik að þau þurfa stuðning öndunarvélar og á hverju ári koma upp slík tilvik hér á landi. 

„Það eru stór og mikilvæg tímamót að geta hafið bólusetningu með mótefni við RS-veirunni til að vernda yngstu börnin sem eru viðkvæmust fyrir. Reynsla af efninu er góð og ég hvet foreldra til að þiggja þessa mikilvægu forvörn fyrir börnin sín þegar hún býðst“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra. 

Bólusetningar hefjast næsta haust

Áætlað er að hefja bólusetningu með mótefninu í haust sem býðst þá öllum börnum sem ekki hafa náð 6 mánaða aldri. Einnig verður bólusetning  boðin öllum börnum sem fæðast þegar RS-veirufaraldrar ganga yfir. Við lok samnings um kaup á mótefninu árið 2027 verða áhrif bólusetninganna metin og skoðað hvort skynsamlegt sé að bjóða þær til framtíðar samhliða almennum bólusetningum barna. 

Mikill samfélagslegur ávinningur

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir telur líklegt að reynsla af forvörn gegn RS veiru muni leiða í ljós margþættan samfélagslegan ávinning og að þrátt fyrir umtalsverðan kostnað verði bólusetning ungbarna gegn vírusnum engu að síður hagkvæm þegar upp er staðið. Hún bendir á að eftir síðastliðinn vetur hafi orðið ljóst að efnið hafði gríðarleg áhrif á faraldurinn í öðrum ríkjum meðal yngstu barnanna sem sýndi sig í mun færri og skemmri innlögnum þeirra á spítala af völdum RS veirusýkingar. 

Nokkur ríki notuðu Beyfortus mótefnið veturinn 2023-2024 með góðum árangri. Lúxemborg hefur birt niðurstöður þar að lútandi sem sýna að innlögnum ungbarna á gjörgæslu vegna RS-veirusýkingar drógust saman um 70% og flest þeirra sem lögðust inn voru óbólusett. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hér á landi eru um 70-80% barna undir 1 árs aldri sem leggjast inn á Barnaspítala Hringsins yfir hávetrartímann vegna veirusýkinga í öndunarfærum með RS-veiru. Ef áhrif af notkun mótefnisins hér á landi verða sambærileg og í grannríkjunum má áætla að áhrifin verði eftirfarandi: 

  • Í stað þess að um eða yfir 500 börn á fyrsta aldursári muni leita til heilsugæslu og Barnalæknaþjónustu vegna veirulungnabólgu og berkjungabólgu árlega verði þau innan við 300. 
  • 10–15 fjölskyldur á ári muni þurfa að sinna börnum sínum á fyrsta ári á sjúkrahúsi vegna RSV í stað um 40 fjölskyldna árlega nú. 
  • Í stað 180 legudaga á sjúkrahúsum landsins vegna 40 barna á fyrsta ári má vænta 30 legudaga hjá 10–15 börnum. 

Þessar áætlanir byggja á því að þátttaka í þessum bólusetningum verði nær almenn, en ef þátttaka er síðri verða áhrifin mun minni þar sem engra hjarðáhrifa er að vænta við bólusetningar af þessu tagi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta