Jarðhiti jafnar leikinn – opnað fyrir styrkumsóknir
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki vegna átaksins Jarðhiti jafnar leikinn, sem Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti nýlega. Um er að ræða stærsta jarðhitaátak sem farið hefur verið í hér á landi á þessari öld, en alls verður einum milljarði króna varið í átak til leitar og nýtingar jarðhita á árunum 2025-2028.
Áhersla er lögð á stuðning við nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Um 10% heimila landsins eru á svo nefndum köldum svæðum og ver ríkissjóður árlega rúmlega 2,5 milljörðum króna til niðurgreiðslu húshitunar á þeim.
Styrkirnir sem nú hafa verið auglýstir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í þeirra umboði. Við styrkveitingar verður m.a. horft til þess að nokkur þekking sé þegar til staðar á jarðhita viðkomandi svæðis og að vísbendingar séu um að finna megi heitt vatn sem hægt sé að nýta beint inn á hitaveitu, eða volgt vatn í nægilegu magni svo nýta megi á miðlæga varmadælu á svæðum.
Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði verkefnisins gegn mótframlagi umsækjanda. Verkefnin geta snúið að því að hefja nýtingu þar sem það á við, eða að frekari rannsóknum með vísan í fyrri niðurstöður.
Við kynningu átaksins kom fram í máli ráðherra að Ísland sé í einstakri stöðu þegar komi að nýtingu jarðhita og að átakinu sé ætlað að jafna stöðu þeirra sem búi á köldum svæðum. Auk þess þjóni átakið markmiðum ríkisstjórnarinnar um að ná árangri í orkuskiptum og loftslagsmálum. „Með árangri í leit og nýtingu jarðhita munum við lækka húshitunarkostnað heimila þar sem hann er mestur, en ekki síður létta kostnaði af fyrirtækjunum, af sveitarfélögum og grunnþjónustu, skólum og hjúkrunarheimilum, á köldum og krefjandi svæðum. Þetta er grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun og byggðaþróun í landinu,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Umsóknarfrestur er til 1. maí.
Loftslags- og orkusjóður fer með umsjón með auglýsingu og umsýslu styrkjanna. Umsóknir skulu sendar gegnum þjónustugátt Orkustofnunar: gattin.os.is.
Nánari upplýsingar á vef Umhverfis og orkustofnunnar
Blásið til sóknar – Jarðhiti jafnar leikinn