Dómsmálaráðherra hvetur fólk til að sækja um nám í lögreglufræði
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hvetur alla áhugasama um fjölbreytt og krefjandi starf í þágu samfélagsins til að sækja um nám í lögreglufræði. Nýverið var ákveðið að fjölga bæði stöðugildum innan lögreglunnar um land allt og þeim sem komast inn í lögreglunám.
„Lögreglan er ein okkar mikilvægasta stétt. Hún sinnir margvíslegum verkefnum, allt frá því að mæta í skóla og kenna börnum umferðarreglurnar til rannsókna á stórum sakamálum. Við búum í fjölbreyttu samfélagi og þurfum fólk með alls konar bakgrunn,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. „Ég starfaði sjálf á ákærusviði hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og er þakklát fyrir þá reynslu sem ég öðlaðist á þeim tíma. Lögreglan vinnur aðdáunarvert starf á degi hverjum. Án lögreglunnar virkar ekki samfélagið. Við eigum að hampa stéttinni og hvetja öflugt fólk til að sækja um þetta mikilvæga nám.“Lögreglufræði veitir trausta fræðilega og hagnýta þjálfun á fjölbreyttum sviðum, allt frá vettvangsstörfum og forvörnum til rannsókna og tæknilegrar greiningar. Námið býr nemendur undir lifandi og ábyrgðarmikið starf, þar sem enginn dagur er eins.
Umsóknarfrestur rennur út 31. mars, sjá nánar.