Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar: Jákvæð afkoma árið 2028
Hallarekstur ríkissjóðs verður stöðvaður þegar árið 2027 og sjálfbærni opinberra fjármála tryggð samkvæmt fjármálastefnu fyrir árin 2026-2030 sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram á Alþingi. Stefnan staðfestir helsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar sem er að stöðva hallarekstur ríkissjóðs til þess að ná efnahagslegum stöðugleika, minnka verðbólgu og lækka vexti. Samhliða bættri afkomu munu skuldir hins opinbera lækka markvisst í hlutfalli við landsframleiðslu.
Fjármálastefna er lögð fram í upphafi kjörtímabils samkvæmt lögum um opinber fjármál. Í henni marka stjórnvöld ramma um útgjaldavöxt, afkomu og skuldaþróun ríkis og sveitarfélaga sem tryggir ábyrga hagstjórn og sjálfbær opinber fjármál. Í fjármálaáætlun sem verður lögð fram á næstunni birtist nánari stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um útgjöld eftir málefnasviðum ásamt tekjum ríkissjóðs.
Hóflegur útgjaldavöxtur stuðlar að bættri afkomu og lækkun skuldahlutfalls
Fjármálastefnan byggir á þeirri skýru sýn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Lykilatriðin í stefnunni eru þrjú:
- Hallarekstur hins opinbera er stöðvaður þegar á árinu 2028 og í kjölfarið verður afgangur á rekstri. Hallarekstur A1-hluta ríkissjóðs verður stöðvaður ári fyrr eða árið 2027.
- Gripið er í taumana á skuldaþróun hins opinbera og skuldahlutfallið lækkar örugglega og innan ásættanlegs tíma niður að 30% af landsframleiðslu.
- Vöxtur opinberra útgjalda á næstu árum verður minni en vöxtur landsframleiðslunnar þannig að hlutfall útgjalda af landsframleiðslu mun lækka.
Ný stöðugleikaregla fyrir opinber fjármál
Fjármálastefnan byggir í fyrsta sinn á nýrri stöðugleikareglu fyrir opinber fjármál, sem setur ófjármögnuðum útgjaldavexti ríkisins mörk. Með reglunni næst betur jafnvægi milli efnahagslegs stöðugleika og sjálfbærni opinberra fjármála.
Samkvæmt fjármálastefnunni verður vöxtur útgjalda ríkissjóðs á næstu árum talsvert undir því hámarki sem ný stöðugleikaregla leyfir. Með aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálunum batnar afkoma ríkissjóðs og hallarekstur stöðvast innan tveggja ára. Í kjölfarið snýst sá halli, sem verið hefur á ríkissjóði síðan 2019, í afgang.
Þetta þýðir að skuldir hins opinbera vaxa hægar en landsframleiðslan og skuldahlutfall hins opinbera tekur að lækka.
Sjálfbærni opinberra fjármála tryggð
Fullt tilefni er til varfærinnar fjármálastefnu sem eykur sjálfbærni opinberra fjármála. Skuldahlutföll hins opinbera eru of há, lækkun þeirra hefur ekki verið nógu markviss og hallarekstur hefur verið meiri en þolað verður til lengdar. Þróttur er í efnahagslífinu og ýmis merki um að eftirspurn í hagkerfinu sé að taka við sér á ný. Reynslan kennir að brýnt er að nota tímann þegar efnahagsskilyrði eru hagstæð til þess að efla viðnámsþrótt þjóðarbúsins. Rétt er því að stöðva hallarekstur sem fyrst.
Óvissa og óveðurský í alþjóðamálum gera það enn meira aðkallandi að opinber fjármál sé undir áföll búin. Til þess að stjórnvöld geti tekið á sig byrðar í þágu samfélagsins þurfa ríkisfjármálin að komast á réttan kjöl. Horfur í ytra umhverfi eru þannig að undirbúningi fyrir næsta áfall má ekki slá á frest.
Aðhald styður heimilin
Mikilvægt er að fjármálastefnan leggist á árarnar með peningastefnu Seðlabankans. Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum styður við hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta, með tilheyrandi ávinningi fyrir heimili og atvinnulíf.