Hoppa yfir valmynd
28. mars 2025 Forsætisráðuneytið

Eindregin samstaða Evrópuríkja með Úkraínu

Eindregin samstaða Evrópuríkja með Úkraínu - myndMynd: Skrifstofa forseta Frakklands

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tók þátt í fjölmennum leiðtogafundi Evrópuríkja í Elysée-höll í París í gær. Emmanuel Macron Frakklandsforseti boðaði til fundarins með skömmum fyrirvara fyrr í vikunni.

Meginefni fundarins var áframhaldandi hernaðarstuðningur við Úkraínu og farið var yfir hvernig tryggja megi sem styrkasta stöðu Úkraínu til framtíðar á þessum viðkvæma tímapunkti í stríðinu við Rússa.

„Á leiðtogafundinum í París í gær kom fram mikilvæg samstaða meðal breiðs hóps ríkja um áframhaldandi stuðning við Úkraínu. Nú er nauðsynlegt að samræma pólitísku skilaboðin og fylgja eftir tæknilegum fundum um aðgerðir. Vopnahlé er ekki í höfn þó að viðræður séu hafnar. Þess vegna þurfum við að styrkja varnir Úkraínu enn frekar og bakka ekki með refsiaðgerðir gagnvart Rússum,“ segir Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra.

Forsætisráðherra lagði áherslu á það í umræðum á fundinum að Evrópa sé samhljóma og skýr í málflutningi sínum. Þá væri mikilvægt að sjónarmið Evrópu verði tekin til greina við samningaborðið í vopnahlés- og friðarviðræðum. Hún fagnaði því að Evrópuríkin væru að efla varnargetu sína til muna en benti á að Atlantshafsbandalagið (NATO) yrði ávallt þungamiðjan í öryggis- og varnarmálum álfunnar. Öflugri varnir Evrópu styrki fælingarmátt NATO, ekki síst þegar kemur að Norður-Atlantshafssvæðinu.  

Þá áréttaði forsætisráðherra að Ísland hefði nýlega tvöfaldað framlög sín til stuðnings Úkraínu og myndi halda áfram að styrkja varnir landsins, til dæmis í gegnum danska frumkvæðið sem miðar að því að efla úkraínska vopnaframleiðslu og jarðsprengjuleit. Ísland myndi jafnframt leggja sitt af mörkum við áætlanir sem miðuðu að friðargæslu.

Um 30 leiðtogar Evrópuríkja og stofnana Evrópusambandsins (ESB) voru saman komnir á fundinum í Elysée-höll í gær. Fundurinn lýsti yfir eindregnum stuðningi við Úkraínustjórn en Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu var á meðal gesta. Einnig var áréttaður stuðningur við það frumkvæði sem Frakkar og Bretar hafa sýnt að undanförnu. Ríkin tvö hafa unnið að áætlanagerð og viðbúnaði fyrir Evrópuþjóðir til stuðnings vopnahléi, ef vopnahlésviðræður sem nú standa yfir að frumkvæði Bandaríkjastjórnar skila árangri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta