Mikilvægt skref í baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi samþykkt í ríkisstjórn
Ríkisstjórnin samþykkti frumvarp dómsmálaráðherra um endurheimt ávinnings af ólöglegri starfsemi á fundi hennar í dag. Í frumvarpinu felast breytingar á meðal annars lögum um meðferð sakamála, almennum hegningarlögum og lögreglulögum.
„Það er stefna ríkisstjórnarinnar að taka fast á skipulagðri glæpastarfsemi og frumvarpið er mikilvægt skref í þeirri baráttu. Með því aukum við skilvirkni og eflum löggæsluyfirvöld til að sinna því nauðsynlega hlutverki sem felst í endurheimt illa fengins ágóða,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Markmið frumvarpsins er að efla getu löggæsluyfirvalda til að rannsaka, haldleggja, kyrrsetja og gera eignir upptækar þar sem fyrir liggur fjárhagslegur ávinningur af broti. Einnig er það mikilvægt markmið að auka skilvirkni og hraða yfirvalda til að endurheimta ólögmætan ávinning.
- Meginefni frumvarpsins má skipta í þrjá hluta.
- Breytingar á heimildum til upptöku ólögmæts ávinnings.
- Setja á fót sérstaka einingu innan embættis héraðssaksóknara sem hefur það hlutverk samhæfa og vera leiðandi í að endurheimta ólögmætan fjárhagslegan ávinning af brotum.
Lögfesting á reglum sem skylda fjármálastofnanir til að láta af hendi upplýsingar eða gögn sem þær hafa undir höndum til lögreglu og ákæranda vegna rannsókna á mögulegum brotum sem geta varðað fjögurra ára fangelsi.
Frumvarpið er jafnframt liður í að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sem meðal annars má leiða af þátttöku Íslands í alþjóðlega fjármálaaðgerðahópum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, FATF (e. Financial Action Task Force) auk þess að færa regluverkið til samræmis við það sem gildir annars staðar á Norðurlöndum.
Árið 2017 var gerð svokölluð fjórða úttekt af hálfu FATF á þessum málaflokki hér á Íslandi. Niðurstöður voru ekki góðar. Í kjölfarið fór Ísland á svokallaðan gráan lista árið 2019. Vera Íslands á gráa listanum olli einstaklingum og fyrirtækjum ýmiss konar vandkvæðum í alþjóðlegum viðskiptum. Allt kapp var lagt á að losna af listanum af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ísland fór svo af listanum árið 2020. Framlagning þessa frumvarps er m.a. liður í því að uppfylla þessar alþjóðlegar skuldbindingar. Fimmta úttekt FATF er fyrirhuguð árið 2025.
Við gerð frumvarpsins var meðal annars haft samráð við embætti héraðssaksóknara, embætti ríkissaksóknara, sýslumanninn á Norðurlandi vestra og Skattinn. Frumvarpið var birt í Samráðsgátt stjórnarráðsins til umsagnar í febrúar og ellefu umsagnir bárust.