Hoppa yfir valmynd
28. mars 2025 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundaði með stjórnvöldum á Spáni

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og José Manuel Albares utanríkisráðherra Spánar. - myndUtanríkisráðuneyti Spánar

Traust og umfangsmikið samstarf Íslands og Spánar á undanförnum árum, fyrirhuguð opnun sendiráðs Íslands í Madríd, og mikilvægi þess að hugsanlegar verndarráðstafanir ESB í tollamálum nái ekki til Íslands á grundvelli EES-samningsins og náins samstarfs við ESB voru meðal þess sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og José Manuel Albares utanríkisráðherra Spánar ræddu á fundi sínum í spænsku höfuðborginni í dag. 

Ráðherrarnir ræddu einnig öryggis- og varnarmál Evrópu, stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs og þróun mannréttinda á heimsvísu.

„Samstarf Íslands og Spánar byggir á traustum grunni og hefur aukist töluvert síðustu ár. Spánn er einn af okkar mikilvægustu útflutningsmörkuðum og þúsundir Íslendinga dvelja á Spáni á hverjum tíma til lengri eða skemmri tíma til að lifa og njóta,“ segir Þorgerður Katrín. „Einmitt þess vegna vinnum við nú hörðum höndum að því að koma á fót sendiráði Íslands í Madríd síðar á árinu, svo við getum þjónustað landa okkar betur og aukið um leið blómlegt samstarf okkar við Spán á fleiri sviðum.“

Ísland og Spánn eru meðal þeirra ríkja sem leiða baráttuna fyrir kynjajafnrétti á alþjóðavettvangi og í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, þar sem ríkin vinna náið saman með líkt þenkjandi ríkjum.

„Það er gríðarlega mikilvægt að þjóðir eins og okkar vinni ötullega saman og þétti samstarfið enn frekar á tímum bakslags í mannréttindamálum, ekki síst hvað varðar jafnréttismál og réttindi hinsegin fólks,“ segir Þorgerður Katrín. „Við munum nýta sameiginlega rödd okkar í mannréttindaráðinu, ásamt öðrum þjóðum sem deila okkar gildum, til að tala hátt og berjast gegn þessari ömurlegu þróun.“

Þorgerður Katrín átti sömuleiðis fund með Margarita Robles varnarmálaráðherra Spánar. Mikill vilji er til að auka varnarsamstarf enn frekar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og áætla Spánverjar að sinna loftrýmisgæslu á Íslandi í sumar. Ráðherrarnir ræddu einnig stuðning ríkjanna við varnarbaráttu Úkraínu gegn innrásarstríði Rússlands.

 
  • Þorgerður Katrín átti sömuleiðis fund með Margarita Robles varnarmálaráðherra Spánar. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta