Hoppa yfir valmynd
31. mars 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Staða aðgerða gegn ofbeldi meðal barna

Aðgerðahópur vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum hefur nú skilað fyrstu stöðuskýrslu um innleiðingu aðgerða. Aðgerðunum er ætlað að sporna við þróun í átt að auknu ofbeldi, auka forvarnarstarf og leiða saman fjölbreytta þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi.

Fyrstu aðgerðirnar voru kynntar í júní 2024 og í september sama ár var ákveðið að fjölga aðgerðum og auka fjármagn til þeirra. Aðgerðahópurinn, sem tók til starfa í september síðastliðnum, er skipaður fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, innviðaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Reykjavíkurborgar, Barna- og fjölskyldustofu, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, embættis ríkislögreglustjóra, lögregluembætta og Heimilis og skóla. Mikil áhersla er lögð á þétta og góða samvinnu allra þeirra sem koma að málefnum barna.

Rannsóknir hafa sýnt að afleiðingar ofbeldis gegn börnum eru margþættar og alvarlegar fyrir börnin, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt. Hvort sem um er að ræða börn sem beita ofbeldi eða börn sem eru þolendur ofbeldis þá er mikilvægt að barnvæn nálgun sem er bæði áfallamiðuð og menningarnæm sé höfð að leiðarljósi.

Aðgerðahópurinn vinnur áfram að heildstæðri innleiðingu, forgangsröðun og framkvæmd aðgerða. Vinnsla allra aðgerða er hafin og mótuð hefur verið áætlun fyrir innleiðingu og eftirfylgni til næstu tveggja ára. Með markvissri innleiðingu aðgerða og eftirfylgni er ekki einungis verið að mæta þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin hér á landi heldur einnig að greina umfang og eðli vandans, og þróa bestu starfshætti fyrir Ísland.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta