Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2025 Heilbrigðisráðuneytið

102 dagar í heilbrigðisráðuneytinu

Heimsókn ráðherra á Landspítala - myndMynd: Landspítali
Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins undir forystu Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra stendur á tímamótumþar sem 100 dagar eru liðnir frá því að hún tók við Stjórnarráðinu og tveimur dögum betur. Í tilefni þess er hér stiklað á stóru um helstu verk og áherslur Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra frá því að hún tók við embætti heilbrigðisráðherra, 22. desember síðastliðinn.

Heilbrigðisráðherra hefur frá því hún tók við embætti heimsótt margar þeirra stofnana sem heyra undir ráðuneytið og einnig ýmis félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem veita opinbera heilbrigðisþjónustu á grundvelli samninga. Hún hefur einnig haldið samráðsfund með forstjórum þeirra stofnana sem heyra undir ráðuneytið en miðað er við að halda slíka fundi fjórum sinnum á ári. 

Þingstörfin

  • Heilbrigðisráðherra hefur þegar mælt fyrir fimm af sjö frumvörpum sínum á þessu þingi. Eitt þeirra er orðið að lögum þrjú eru til umfjöllunar þingnefndar og í dag mælir ráðherra fyrir þeim tveimur sem eftir standa. Frumvörpin og umfjöllun um þau er aðgengileg á vef Alþingis.

Börn - áhersla á að stytta bið eftir þjónustu

  • Ráðherra tilkynnti í mars um 36 milljóna króna aukið framlag til Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins til að styrkja þverfaglega þjónustu fyrir börn í verulegri ofþyngd og fjölskyldur þeirra. Markvisst er unnið að því að stytta bið barna eftir þessari þjónustu og mæta betur sértækum þörfum þeirra. Aukið fjármagn á þessu ári kemur af safnliðum fjárlaga, en stefnt er að því að aukningin verði tryggð varanlega á fjárlögum. 
  • Geðheilsumiðstöð barna hefur fengið aukið fjármagn sem gerir kleift að fjölga stöðugildum í greiningarteymum miðstöðvarinnar um tvö í því skyni að stytta bið barna eftir þjónustu. Miðstöðin veitir annars stigs geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra um allt land. Þá er sérstök áhersla á að efla rafræna ferla og umsýslu til að auka skilvirkni í greiningum til að stytta biðtíma.
  • Þá hefur ráðherra skipað sérstakan hóp sem ætlað er að kortleggja nýjar áskoranir er varða lýðheilsu barna og koma með tillögur þar um.
  • Unnið er að úrbótum til að stytta bið barna eftir þjónustu talmeinafræðinga. Ráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að koma á fót miðlægu biðlistakerfi, hanna nýtt umsóknarferli fyrir þjónustu talmeinafræðinga og skrá núverandi biðlistaupplýsingar inn í nýtt kerfi. Samhliða verður metið hvort gera þurfi breytingar á því hvernig ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga á talmeinaþjónustu við tiltekna hópa barna er háttað með áherslu á úrbætur.

Lýðheilsutengd málefni

  • Ráðherra úthlutaði í lok febrúar 98 milljónum króna í styrki úr Lýðheilsusjóði til 153 verkefna um allt land sem öll miða að því að efla lýðheilsu. Einnig úthlutaði ráðherra tæpum 90 m.kr. í styrki til félagasamtaka sem vinna að mikilvægum verkefnum á sviði heilbrigðismála í þágu tiltekinna hópa.

  • Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hófst í mars. Þetta er langþráður áfangi og stórt skref í lýðheilsumálum segir heilbrigðisráðherra því með snemmgreiningu má finna þessi mein á byrjunarstigi og þá eru oftast góðar líkur á lækningu, sbr. frétt ráðuneytisins 3. mars sl.
  • Gjald sjúkratryggðra fyrir röntgenmyndatöku af brjóstum vegna krabbameinsleitar verður í öllum tilvikum 500 kr. hvort sem myndatakan er vegna lýðgrundaðrar skimunar, eftirlits í kjölfar krabbameinsleitar eða liður í eftirliti kvenna í áhættuhópi. Reglugerð heilbrigðisráðherra þessa efnis tekur gildi á morgun.

  • Bólusetning gegn RS-veiru: Ráðherra heimilaði nýverið sóttvarnalækni að kaupa mótefni við RS-veiru til tveggja ára. Bólusetning með efninu verður boðin fyrir 4.500 ungbörn næsta vetur og einnig 2026-2027. RS-veiran er algeng öndunarfæraveira sem gengur í stórum faröldrum yfir vetrartímann og leggst einkum þungt á börn á fyrsta aldursári.

  • Drög að aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda í byrjun febrúar. Áætlunin tekur til áranna 2025 til 2030. Í henni eru lagðar til 26 aðgerðir sem snúa að öllum stigum sjálfsvígsforvarna; forvörnum, íhlutunum og stuðningi eftir sjálfsvíg. Sjálfsvíg eru alvarlegur lýðheilsuvandi sem hefur víðtækar afleiðingar fyrir samfélagið allt. Árangursrík aðgerðaáætlun er því mikilvæg til að stuðla að bættri heilsu landsmanna.

  • reglugerð heilbrigðisráðherra sem kveður á um takmarkanir á útlitsbreytandi meðferðum með fylliefnum var birt í Stjórnartíðindum í febrúar. Markmiðið er að tryggja öryggi þeirra sem undirgangast meðferð með fylliefnum sem er sprautað eða komið með öðrum hætti fyrir, í eða undir húð, í vöðva eða annan vef.

Áfengis- og vímuefnameðferð

  • Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjármögnun meðferðarúrræða vegna vímuefnavanda sérstakt áherslumál. Stefnt er að því að veita 350 milljóna króna viðbótarfjármagni inn í málaflokkinn af fjáraukalögum, strax á þessu ári, líkt og fram kom hjá heilbrigðisráðherra í ræðu á Alþingi í byrjun mars. Þar kom einnig fram ákvörðun hennar um að koma á formlegu samstarfi hagsmunaaðila á sviði meðferðar í því skyni að samhæfa og samþætta þjónustuna og sérstaklega að auka bráðaþjónustu. Búið er að stofna slíkan hóp og er sagt frá honum í frétt ráðuneytisins dags. 31. mars.

Stjórnsýsla og stafrænar lausnir

  • Hafin er vinna við að skilgreina hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri sem varasjúkrahús Landspítala. Starfshópur sem vinnur að verkefninu skal taka mið af þjóðaröryggisstefnu, almannavarnarlögum og viðbragðsáætlunum jafnframt því að meta möguleika Landspítala og annarra stofnana til að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum.
  • Markviss stafræn þróun er lykilatriði til að bæta skilvirkni, nýtingu fjármuna og gæði heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Til að styðja við framfarir á þessu sviði er mikilvægt að fá heildstæða mynd af stöðu stafrænna umbreytinga, hvernig núverandi lausnir nýtast og hvaða aðgerðir geta styrkt heilbrigðiskerfið til framtíðar. Slík vinna er hafin í heilbrigðisráðuneytinu og hefur sérfræðingur á þessu sviði verið ráðinn tímabundið til verkefnisins.
  • Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að halda nýsköpunarmessu í haust þar sem helstu aðilar sem koma að nýsköpun og þróun nýrra leiða og lausna við veitingu heilbrigðisþjónustu koma saman.
  • Árlegt heilbrigðisþing sem haldið verður í nóvember verður tileinkað endurhæfingu á sviði heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að hefja heildarendurskoðun á endurhæfingu í heilbrigðiskerfinu, m.a. með áherslu á að greina inntak og gæði þjónustunnar og kaup hins opinbera á endurhæfingarþjónustu samkvæmt samningum.

Erlent samstarf

  • Ráðherra hefur sótt tvo fundi heilbrigðisráðherra Evrópu og m.a. átt tvíhliða fund með heilbrigðisráðherra Póllands sem fer sem stendur með formennsku í Evrópusambandinu. Markmið þess fundar var m.a. að efla samstarf Íslands á vegum heilbrigðisviðbúnaðar og lyfjamála.
  • Þá sótti ráðherra fyrir skömmu samstarfsfund Finnlands, Wales, Skotlands og Íslands um velsældarhagkerfi og lýðheilsumál.

  • Heimsókn ráðherra á Landspítala. Alma D. Möller og Runólfur Pálsson. - mynd
  • Alma D. Möller heilbrigðisráðherra með fulltrúum starfshóps um rétta þjónustu á réttum stað - mynd
  • Frá heimsókn Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra til Geðheilsumiðstöðvar barna 7. febrúar 2025 - mynd
  • Alma D. Möller heilbrigðisráðherra ásamt Maríu Heimisdóttur landlækni - mynd
  • Frá heimsókn á SÁÁ - mynd
  • Alma D. Möller og Rúna Hauksdóttir Hvannberg - mynd
  • Frá heimsókn á SÁÁ - mynd
  • 102 dagar í heilbrigðisráðuneytinu - mynd úr myndasafni númer 8
  • 102 dagar í heilbrigðisráðuneytinu - mynd úr myndasafni númer 9
  • 102 dagar í heilbrigðisráðuneytinu - mynd úr myndasafni númer 10
  • Frá heimsókn heilbrigðisráðherra til Lyfjastofnunar - mynd
  • Alma D. Möller heilbrigðisráðherra ásamt Ástu Valdimarsdóttur ráðuneytisstjóra - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta