Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2025 Dómsmálaráðuneytið

Framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum lögð fyrir Alþingi

Dómsmálaráðherra mælti í gær fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025-2028 á Alþingi. Framkvæmdaáætluninni er ætlað að skilgreina stefnu stjórnvalda og lýsa verkefnum innan Stjórnarráðsins sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjajafnréttis.

„Við getum verið stolt af árangri okkar í jafnréttismálum enda erum við fremst meðal þjóða á sviði jafnréttis. Ísland trónir í efsta sæti á alþjóðavettvangi þegar kemur að jafnrétti kynjanna og hefur gert um árabil. Sá árangur náðist ekki þrautarlaust og honum getum við þakkað samstöðu baráttukvenna fyrri áratuga og mikilvægra pólitískra ákvarðana,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttismála.

„Þótt gríðarlegum árangri hafi verið náð eru margar áskoranir sem bíða þess að vera leystar. Þar má nefna kynbundið ofbeldi sem er svartur blettur á okkar samfélagi. Heimilisofbeldi er allt of algengt. Einnig má nefna að ein stærsta hindrunin sem stendur í vegi fyrir launajafnrétti hér á landi felst í kynskiptum vinnumarkaði og vanmati hefðbundinna kvennastarfa í samanburði við hefðbundin karlastörf. Þá er enn mikil vinna eftir til að sporna gegn kynbundnu áreitni og ofbeldi gagnvart konum,“ sagði ráðherra.

Tillagan samanstendur af 39 aðgerðum og er ætlað að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna í íslensku samfélagi. Aðgerðir í áætluninni skiptast í sex efnisflokka sem eru kyn, áhrif og þátttaka, kynjuð tölfræði og mælaborð, jafnrétti á vinnumarkaði og kynbundinn launamunur, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, jafnrétti í menntun og íþrótta- og æskulýðsstarfi og alþjóðastarf. Allar aðgerðirnar eru tengdar við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Áætlunin er lögð fram að fengnum tillögum einstaka ráðuneyta, auka þess að hliðsjón var höfð af umræðum á á jafnréttisþingi og niðurstöðum umræðuhópa frá fundum samráðsvettvangs um jafnréttismál. Þá var tillagan unnin í samráði við Jafnréttisstofu og kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta