Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Yfir 3.000 styrkir veittir til kaupa á rafbílum

Ný tegund styrkveitingar til rafbílakaupa tók gildi áramótin 2023-2024. Styrkjunum er ætlað að styðja við orkuskipti og stuðla að umhverfisvænni samgöngum. Með stafrænum lausnum er umsýsla rúmlega 3 þúsund styrkja að fullu sjálfvirk, allt frá umsókn til afgreiðslu styrkja.

Frá janúar 2024 hafa 3020 rafbílastyrkir verið veittir. Styrkirnir eru á bilinu 400 – 900 þúsund krónur en í heildina hefur verið veitt 2,5 milljörðum króna í styrkina.

 

Rafbílastyrkir eru eitt dæmi af fjölmörgum opinberum ferlum þar sem tekist hefur að nýta tæknina í hagræðingarskyni. Má sem dæmi nefna að umsókn um rafbílastyrk á pappírsformi hefði kallað á að lágmarki tvær heimsóknir umsækjanda með gögn til stofnana og afgreiðslutími áætlaður um 20 mínútur á hverja umsókn. Á meðfylgjandi mynd má sjá áætlaðan árlegan ávinning við sjálfvirkt ferli.  

En hvernig virkar sjálfvirkt ferli?

Umsókn um rafbílastyrki er að finna á Ísland.is, þar skráir umsækjandi sig inn með rafrænum skilríkjum. Umsóknin sækir öll tilheyrandi gögn um raunverulegan eiganda bifreiðar til Samgöngustofu með því að nýta vefþjónustur og skilar sömuleiðis niðurstöðum til Orkustofnunar með vefþjónustum. Niðurstöðurnar fara svo sjálfkrafa til Fjársýslunnar sem greiðir út styrkinn til umsækjanda. Sjálfvirka ferlið tryggir að umsóknin flytur gögn sjálfkrafa milli staða í stað þess að fólk sjái um flutninginn.

Stafrænt ferli rafbílastyrkja var samstarfsverkefni Orkustofnunar, Samgöngustofu, Fjársýslunnar og Stafræns Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta