Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2025 Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið

Námsmenn fái styrk á hverri önn og afborganir námslána hefjist seinna

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. - mynd

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, mælti fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna á Alþingi í gær. Í frumvarpinu eru breytingar til viðbótar þeim sem samþykktar voru á síðasta þingi. Allar breytingarnar hafa það sameiginlega markmið að aðlaga lánafyrirkomulag að þörfum námsmanna og gera fyrirkomulag námslána skýrt í lögunum. Frumvarpið nær til þátta sem brýnt er að taka á og unnt er að gera á þessu stigi, t.d. með tilliti til aðhalds ríkisfjármála í tengslum við gerð fjármálaáætlunar.

„Námslánakerfið er og hefur verið gríðarlega mikilvægt til að jafna stöðu og möguleika fólks til æðri menntunar. Það er mikilvægt að styðja vel við kerfið og tryggja að þeir sem þurfa á því að halda geti treyst á það og að sjóðurinn verði raunverulega félagslegur jöfnunarsjóður,“ segir ráðherra. „Þetta er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir þjóðina og opin og hreinskilin umræða um hvernig hægt er að bæta lánakerfið í þágu nemenda er nauðsynleg til að vel takist til.“

Meðal þess sem lagt er fram í frumvarpinu eru breytingar á fyrirkomulagi námsstyrkja þannig að námsmaður fái 20% styrk á hverri önn að uppfylltum kröfum um námsframvindu og 10% ljúki hann námi með prófgráðu innan tilskilinna tímamarka. Í dag er styrkurinn 30% og veittur í eitt skipti við námslok. Með því að skipta styrknum upp er áætlað að námsmaður fái a.m.k. einhvern styrk á námstímanum, jafnvel þótt viðkomandi þurfi að hverfa frá námi af félagslegum eða óvæntum ástæðum á borð við veikindi. 

Þá er lagt til að upphafstími afborgana námslána verði lengdur úr 12 mánuðum eftir námslok í 18 mánuði og að heimild til að endurgreiða eitt lán í einu verði rýmkuð. Þannig nái heimildin bæði til lána með tekjutengdum afborgunum, eins og lögin eru í dag, og til lána með jöfnum afborgunum. Þetta er gert í þeim tilgangi að lánþegar lendi ekki í mjög íþyngjandi greiðslubyrði eins og komið hefur fyrir suma lánþega samkvæmt núgildandi lögum.

Loks eru gerðar breytingar til að skýra betur vaxtabyrði námslána, sem hvílir á ríkissjóði fram að námslokum, sem og á vaxtaviðmiðum námslána þannig að skýrt sé að námslán skuli bera sömu breytilegu vexti og kjör endurlána ríkisins úr ríkissjóði hverju sinni.

Í skýrslu sem kynnt var á Alþingi á vorþingi 2024 kom fram að æ færri nemendur nýttu sér stuðning sjóðsins og að þáverandi lánafyrirkomulag hentaði ekki stórum hópi þeirra. Breytingunum sem ráðherra hefur nú mælt fyrir er ætlað að koma til viðbótar við breytingar á lögunum sem gerðar voru á síðasta þingi. Þá var ábyrgðarkerfi námslána m.a. fellt úr gildi, skilyrði til námsstyrkja rýmkuð og tekið á fjármögnun sjóðsins með skýrari hætti en áður. Við undirbúning frumvarpsins var víðtækt samráð haft við fulltrúa námsmannahreyfinganna, stjórn og starfsfólk Menntasjóðs, BHM, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta