Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tillaga um uppgjör og slit ÍL-sjóðs

Eins og auglýst hefur verið, verður haldinn fundur skuldabréfaeigenda ÍL-sjóðs þann 10. Apríl næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica. Fundur eigenda HFF34 bréfa er kl. 16:00 og HFF44 bréfa kl. 17:00. Nánari upplýsingar um hvað þarf að gera til að taka þátt í fundinum er að finna undir spurt og svarað á vef ráðuneytisins um málefni ÍL-sjóðs.

Á fundinum verður lögð fram tillaga að skilmálabreytingu bréfanna sem heimilar útgefanda að gera bréfin upp með afhendingu tiltekinna eigna. Tillagan er niðurstaða rúmlega eins árs viðræðna ráðgjafa 18 lífeyrissjóða, sem saman fara með meirihluta skulda sjóðsins, og viðræðunefndar fjármála- og efnahagsráðherra. Hljóti tillagan samþykki 75% eigenda að kröfuvirði telst hún jafnframt bindandi fyrir alla eigendur sem skapar skilyrði fyrir uppgjöri og slitum sjóðsins. Kostnaður ríkissjóðs við uppgjör á ríkisábyrgð vegna skulda ÍL-sjóðs í samræmi við tillöguna er 168 ma.kr.

Jafnframt mun fjármála- og efnahagsráðherra leggja fram á Alþingi frumvarp til fjáraukalaga sem veitir heimild til að ljúka málinu á grundvelli tillögunnar. Sérstök verkefnisstjórn um málefni ÍL-sjóðs hefur áður lagt til við fjármálaráðherra að unnið verði að framgangi hennar.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið samantekt á málefnum ÍL-sjóðs og grundvelli þeirrar tillögu sem nú liggur fyrir. Jafnframt hefur verið útbúin kynning sem fer yfir helstu atriði málsins. Bæði samantekt og kynningu má nú nálgast á vef ráðuneytisins en þar er jafnframt að finna ýmsar aðrar upplýsingar er varða málefni sjóðsins.

Fyrir liggur að rekstur Íbúðalánasjóðs og síðar ÍL-sjóðs hefur verið ósjálfbær um langt skeið. Eiginlegri lánastarfsemi sjóðsins var hætt fyrir meira en áratug og vegna fyrirkomulags á fjármögnun sjóðsins hefur áframhaldandi rekstur hans sem sjálfstæðrar einingar verið með viðvarandi halla og samsvarandi tjóni fyrir ríkissjóð sem ábyrgðaraðila. Við mat á valkostum í stöðunni hefur samkomulag við eigendur bréfanna verið talinn besti kosturinn þar sem sameiginlegir hagsmunir hljóti að felast í því að afstýra mikilli óvissu um afleiðingar af gjaldþroti sjóðsins sem ella liggur fyrir. Þannig sé það allra hagur að skipulegt uppgjör sjóðsins fari fram sem fyrst og að slíkt uppgjör tryggi best heildarhagsmuni almennings.

Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra:

„Sú tillaga sem nú liggur fyrir eigendum skuldabréfa ÍL-sjóðs er afrakstur mikillar vinnu fulltrúa stjórnvalda og stærstu kröfuhafa sjóðsins síðastliðið rúmt ár, en lífeyrissjóðir landsmanna eiga rúmlega 97% af öllum skuldum sjóðsins. Af hálfu stjórnvalda var leitast við að mæta sjónarmiðum sjóðanna og er ríkissjóður að leggja til uppgjörsins ný ríkisskuldabréf til langs tíma að mestu leyti. Þá er tryggt að minni eigendur fá gert upp með ríkisskuldabréfi og reiðufé í íslenskum krónum sem hægt er að gera breytingar á að eigin þörfum. Verði tillagan samþykkt hefur aðilum í sameiningu tekist að eyða þeirri óvissu sem felst í því að sjóðurinn fari í þrot en það er hagur allra aðila málsins og almennings í landinu.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta