Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2025 Atvinnuvegaráðuneytið

Bændur fá tjónastuðning eftir kuldakast í júní 2024

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að tillögu Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra að verja allt að 725 milljónum króna  til stuðnings við bændur sem urðu fyrir tjóni vegna óvanalegs og erfiðs tíðarfars á landinu sumarið 2024. Sumarið var óvenju kalt samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands eða það kaldasta á landsvísu síðan árið 1998.

 Stuðningur verður tvíþættur, annars vegar vegna afurða- og gripatjóns sem atvinnuvegaráðuneytið annast og hins vegar vegna tjóns á hey og uppskeru sem fellur undir hlutverk Bjargráðasjóðs. Gert er ráð fyrir að stuðningur verði greiddur til ríflega 300 búa.

Áætlað er að tæp 60% af heildarstuðningi fari til framleiðenda á Norður- og Austurlandi en þau landssvæði urðu verst úti í kuldakastinu í júní 2024. Þá er áætlað að um 35% stuðningsins fari til framleiðenda á Suðurlandi þar sem rigning og kuldi ollu miklu tjóni á uppskeru.

„Fæðuöryggi er stórt öryggismál fyrir okkur á óvissutímum”  segir atvinnuvegaráðherra. „Innlend matvælaframleiðsla spilar þar lykilhlutverk, því koma stjórnvöld til móts við bændur til að minnka þau áföll sem varð á búum í kjölfar kuldakastsins.“

Utan kuldakastsins á Norður- og Austurlandi í júní 2024 var tíðarfar erfitt víðar á landinu um sumarið, einkum vegna mikilla rigninga og hvassviðris. Í júní snjóaði óvenju mikið á Norðurlandi miðað við árstíma, sumarið einkenndist af lægðagangi, mikilli vætutíð og var óvenjulega úrkomusamt um land allt. Hýsa þurfti búfé sem var komið á beit, sem ekki tókst í öllum tilvikum og fórst umtalsverður fjöldi gripa. Einkum var um að ræða sauðfé, en nokkur dæmi voru einnig um nautgripi og hross. Þá hafði veðurfarið einnig neikvæð áhrif á uppskeru og afurðir ársins. Samkvæmt Hagstofu Íslands var kartöfluuppskera ársins 2024 sú minnsta síðan 1993, gulrótauppskera ársins sú minnsta í 11 ár og kornuppskera sú minnsta frá árinu 2018.

Til að gera viðbrögð skilvirkari og markvissari er gert ráð fyrir að  framtíðarfyrirkomulag sjóða sem bæta  náttúruvá verði endurskoðað, þ.m.t. samlegðar og hagræðingartækifæri. Að auki verður áfram unnið að stefnumótun um náttúruvá, sbr. skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytis frá apríl 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta