Brugðist við vegna heilbrigðisógnar af völdum falsaðra ópíóíða (Nitazene)
Heilbrigðisráðuneytið efndi til skyndifundar í dag með fulltrúum Lyfjastofnunar, Landspítala, embætti landlæknis, tollayfirvalda, lögreglunnar, Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, Afstöðu og Matthildi skaðaminnkun, um leiðir til að bregðast við innflutningi ólöglegra og lífshættulegra ópíóíða. Tilefnið var haldlagning Tollsins á miklu magni af fölsuðum töflum sem litu út eins og oxycontin (80 mg.) en innihéldu nitazene. Nitazene er mjög sterkur ópíóíði, framleiddur á ólöglegum tilraunastofum. Vegna mikils styrks efnisins, er veruleg hætta á öndunarstoppi hjá þeim sem neyta þess sem leitt getur til dauða og eru þess mörg dæmi víða um Evrópu þar sem efnið hefur komist í umferð á ólöglegum fíkniefnamarkaði.
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra segir lífsspursmál að gera allt sem hægt er til að fyrirbyggja að efnið komist inn á fíkniefnamarkaðinn og jafnframt að vera viðbúin ef það gerist til að sporna við alvarlegum afleiðingum: „Reglubundin vöktun innlendra aðila og samstarf við erlendar eftirlitsstofnanir eru forsenda skjótra viðbragða ef ný hættuleg efni komast í umferð, hérlendis eða erlendis. Slíkum viðbragðshópi þarf að koma á fót án tafar, ásamt fleiri aðgerðum til fyrirbyggja eða lágmarka skaða“ segir ráðherra.
Á fundinum í dag var rætt um tillögur að tafarlausum aðgerðum, m.a. með hliðsjón af minnisblaði frá Matthildi skaðaminnkun og Afstöðu til ráðuneytisins. Helstu atriði sem þar voru rædd eru:
- Stofnun vöktunarhóps
- Aukið aðgengi að hraðprófum sem mæla Nitazene
- Aukið aðgengi að Naloxone (mótefni)
- Aðgengi skaðaminnkandi þjónustuveitenda til að mæla efni í umferð sem talin eru hættuleg
- Sameiginlegt verklag um snemmtæka viðvörun
- Fræðsla um skaðsemi Nitazene fyrir notendur vímuefna, viðbragðsaðila, heilbrigðisstarfsfólk o.fl.
Í erindi Lyfjastofnunar til heilbrigðisráðuneytisins síðastliðinn föstudag kom fram að þetta afbrigði af nitazene væri ekki meðal þeirra ólöglegu efna sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerð 333/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Heilbrigðisráðuneytið setti samdægurs reglugerð með uppfærslu á fylgiskjalinu og öðlaðist hún þegar gildi.