Geðheilbrigði og stefnumótun í brennidepli á fundi með WHO
Geðheilbrigðismál á Íslandi voru efni samráðsfundar íslenskra heilbrigðisyfirvalda með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) sem fram fór nýverið. Fundurinn er hluti af fundaröð WHO í tengslum við Evrópusambandsverkefnið Addressing Mental Health Challenges in EU Member States, and Norway and Iceland. Markmiðið er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með víðtækum og samhæfðum aðgerðum í aðildarríkjum Evrópusambandsins, auk Íslands og Noregs.
Þátttakendur á fundinum (fjarfundur) voru fulltrúar Geðráðs, dómsmálaráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.
Ingibjörg Sveinsdóttir, fulltrúi frá heilbrigðisráðuneytisins og WHO flutti opnunarávarp fyrir hönd Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra þar sem fram kom skýr áhersla ráðherra á mikilvægi stefnumiðaðrar nálgunar og alþjóðlegs samstarfs. Í kjölfarið kynntu Helga Sif Friðjónsdóttir og Anna María Káradóttir, sérfræðingar í heilbrigðisráðuneytinu, meginatriði geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar 2023–2027, ásamt helstu áskorunum. Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir frá embætti landlæknis kynnti nýja stefnu um sjálfsvígsforvarnir og Páll Matthíasson formaður Geðráðs fjallaði um hlutverk þess í stefnumótun og samhæfingu.
Fulltrúar WHO kynntu fræðslu- og þjálfunarverkefni sem styðja við starfsfólk og stefnumótendur með hagnýtum verkfærum og námskeiðum. Lögð var sérstök áhersla á réttindamiðaða nálgun, forvarnir gegn fordómum og virka þátttöku fólks sem byggir á eigin reynslu.
Í umræðum var rætt hvernig megi tengja áherslur WHO í geðheilbrigðismálum við íslenskar þarfir. Sérstaklega var fjallað um mikilvægi samhæfingar stefnu, aukinnar þjónustu við börn og ungmenni, stuðnings við fjölbreytta notendahópa og fjármögnunar þjónustunnar, m.a. innan skólakerfisins.