Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Geðheilbrigði og stefnumótun í brennidepli á fundi með WHO

Geðheilbrigðismál á Íslandi voru efni samráðsfundar íslenskra heilbrigðisyfirvalda með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) sem fram fór nýverið. Fundurinn er hluti af fundaröð WHO í tengslum við Evrópusambandsverkefnið Addressing Mental Health Challenges in EU Member States, and Norway and Iceland. Markmiðið er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með víðtækum og samhæfðum aðgerðum í aðildarríkjum Evrópusambandsins, auk Íslands og Noregs.

Þátttakendur á fundinum (fjarfundur) voru fulltrúar Geðráðs, dómsmálaráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.

Ingibjörg Sveinsdóttir, fulltrúi frá heilbrigðisráðuneytisins og WHO flutti opnunarávarp fyrir hönd Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra þar sem fram kom skýr áhersla ráðherra á mikilvægi stefnumiðaðrar nálgunar og alþjóðlegs samstarfs. Í kjölfarið kynntu Helga Sif Friðjónsdóttir og Anna María Káradóttir, sérfræðingar í heilbrigðisráðuneytinu, meginatriði geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar 2023–2027, ásamt helstu áskorunum. Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir frá embætti landlæknis kynnti nýja stefnu um sjálfsvígsforvarnir og Páll Matthíasson formaður Geðráðs fjallaði um hlutverk þess í stefnumótun og samhæfingu.

Fulltrúar WHO kynntu fræðslu- og þjálfunarverkefni sem styðja við starfsfólk og stefnumótendur með hagnýtum verkfærum og námskeiðum. Lögð var sérstök áhersla á réttindamiðaða nálgun, forvarnir gegn fordómum og virka þátttöku fólks sem byggir á eigin reynslu.

Í umræðum var rætt hvernig megi tengja áherslur WHO í geðheilbrigðismálum við íslenskar þarfir. Sérstaklega var fjallað um mikilvægi samhæfingar stefnu, aukinnar þjónustu við börn og ungmenni, stuðnings við fjölbreytta notendahópa og fjármögnunar þjónustunnar, m.a. innan skólakerfisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta