Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2025 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umsagnarskyldu verði létt af eigendum 8.400 húsa

Hyggist eigandi húss, sem byggt var á árunum 1924-1940, sinna viðhaldi þess, s.s. að skipta um einn eða fleiri glugga, þarf samkvæmt núverandi löggjöf að fá formlegt álit Minjastofnunar Íslands og hefur stofnunin haft fjögurra vikna frest til að veita slíka umsögn. - mynd

Umsagnarskylda Minjastofnunar Íslands vegna framkvæmda og breytinga á húsnæði mun heyra sögunni til ef frumvarp Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, verður að lögum. Lagafrumvarpið hefur verið lagt fram og flutt á Alþingi og er nú til umfjöllunar hjá allsherjar- og menntamálanefnd.

Breytingin tekur til um 8.400 húsa og mannvirkja í eigu einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og sveitarfélaga. Samkvæmt gildandi löggjöf eru öll hús og mannvirki sem byggð voru árið 1923 eða fyrr friðuð á grundvelli aldurs. Lögin kveða jafnframt á um umsagnarskyldu Minjastofnunar fyrir þau hús og mannvirki sem voru reist á árunum 1924–1940, svo að eigendur þeirra húsa og mannvirkja hafa þurft að leita álits Minjastofnunar Íslands áður en þeir mega breyta, flytja eða rífa þau.

Minjastofnun mun áfram hafa heimild til að veita faglegt álit um hús og mannvirki sem reist eru eftir 1924, óháð aldri byggingarinnar. Markmið fyrirhugaðra breytinga er að auka skilvirkni í umsýslu minjavörslu og styrkja stoðir hennar með því að beina kröftum hennar að markvissum verndaraðgerðum byggingararfs.

Í frumvarpinu kemur fram að núverandi fyrirkomulag sé í senn talið íþyngjandi og dragi úr getu Minjastofnunar Íslands til að fjalla á vandaðan hátt um öll mál, sem til lengri tíma litið geti haft neikvæð áhrif á varðveislu húsa, annarra mannvirkja og fornminja með hátt varðveislugildi sem sannarlega þarf að vernda. Enn fremur eru ekki talin nægjanlega sterk fagleg rök fyrir því að réttlæta áframhaldandi umsagnarskyldu vegna um 8400 húsa út frá byggingarári einvörðungu, sérstaklega í ljósi þess að umsagnarskyldan veitir ekki þá lögbundnu vernd sem ætla mætti þar sem um er að ræða leiðbeinandi álit sem byggingarfulltrúum sveitarfélaga er ekki skylt til að fara eftir.

Fram kom í máli ráðherra að frumvarpið muni fela í sér mikla einföldun. Með því verði hægt að draga úr reglu- og stjórnsýslubyrði og beina kröftum sérfræðinga Minjastofnunar þangað sem þeirra er þörf. Frumvarpinu er ætlað að styrkja langtímaforsendur og efla skilvirkni stofnunarinnar, sem og að efla og styrkja sveitarstjórnarstigið, húseigendur og allan almenning í húsvernd.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur leggur þunga áherslu á einföldun regluverks og að létta stjórnsýslu- og reglubyrði af heimilum og fyrirtækjum. Með þessu frumvarpi erum við að leggja til mikilvægar breytingar á lögum um menningarminjar. Það er grundvallaratriði að lögbundin vernd sé markviss og kröftum minjavörslunnar sé í raun varið í það sem raunveruleg ástæða er til að vernda. Mörg hús falla nú þegar undir hverfisvernd á grundvelli skipulagsáætlana sveitarfélaga og reynslan sýnir okkur að sveitarfélög eru alla jafna viljug til að standa vörð um varðveisluverð hverfi og götumyndir. Ég tel brýnt að sérfræðingar  Minjastofnunar Íslands geti einbeitt sér að varðveisluverðum húsum óháð aldursviðmiðum.“

 

Menningarminjar (umsagnaskylda húsa og mannvirkja)

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta