Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2025 Félags- og húsnæðismálaráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Utanríkisráðherra kynnir fjórðu landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, ræddi við samstarfsaðila um áskoranir í öryggismálum og framkvæmd nýrrar landsáætlunar í utanríkisráðuneytinu á dögunum. - mynd

Utanríkisráðherra hefur nú lagt fram fjórðu landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi sem markar stefnu stjórnvalda um framkvæmd samnefndrar ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 og síðari ályktana ráðsins þar að lútandi. 

Áhersla verður á þrjú meginsvið: Í fyrsta lagi, að auka þátttöku kvenna í öryggis- og varnarmálum og friðar- og enduruppbyggingu í kjölfar átaka. Í þessu augnamiði munu íslensk stjórnvöld áfram sinna málsvarstarfi og þekkingarmiðlun á vettvangi alþjóðastofnana og kynjajafnréttisfræðslu til nemenda frá átakasvæðum. Í öðru lagi verður lögð áhersla á vernd kvenna og stúlkna og kynjasamþættingu í mannúðarstarfi í samstarfi við alþjóðastofnanir -og félagasamtök. Þá verður áhersla lögð á innleiðingu landsáætlunarinnar á Íslandi, með aukinni þátttöku kvenna í öryggis og varnarmálum og samþættingu kynjasjónarmiða í starfsemi utanríkisráðuneytisins og stofnana á sviði öryggis- og varnarmála sem aðild eiga að áætluninni.

,,Ályktun 1325 um konur, frið og öryggi á ekki síður við í dag en fyrir aldarfjórðungi síðan þegar öryggisráðið samþykkti hana fyrst,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. „Við skiljum nú betur að framlag kvenna skiptir máli fyrir samfélagið í heild og stuðlar að stöðugleika og friði. Þessi mál eru ofarlega á baugi í samtölum mínum við kollega og konur sem starfa í grasrótinni í löndum á borð við Afganistan og Úkraínu. Rödd Íslands skiptir máli og fjórða landsáætlunin verður gott leiðarljós í starfinu framundan“. 

Auk utanríkisráðuneytis koma að framkvæmd landsáætlunarinnar forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, félags- og húsnæðismálaráðuneyti, Vinnumálastofnun, Ríkislögreglustjóri, Landhelgisgæslan, Jafnréttisskóli GRÓ og Alþjóðamálastofnun. Leitast verður við að eiga gott samráð við félagasamtök og alþjóða- og fræðastofnanir um framkvæmdina.

Á þessu ári verður liðinn aldarfjórðungur frá því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 1325 um konur, frið og öryggi, þann 31. október árið 2000. Með henni viðurkenndi ráðið í fyrsta sinn sérstöðu kvenna á átakasvæðum og mikilvægi framlags þeirra til friðar en nú eru ályktanirnar samtals tíu talsins. Um helmingur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hefur gert að minnsta kosti eina landsáætlun og nokkrar alþjóðastofnanir hafa einnig mótað stefnu um konur, frið og öryggi. 

Fjórða landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta