Breyttu fyrirkomulagi vegna atvinnuleysistrygginga ætlað að hvetja fólk til virkni
Breytingar eru fyrirhugaðar á atvinnuleysistryggingakerfinu og er markmið þeirra að grípa fólk fyrr en áður og stuðla að aukinni virkni hjá þeim hópi sem er útsettur fyrir langtímaatvinnuleysi. Hvergi á Norðurlöndum er bótatímabil atvinnuleysistrygginga jafn langt og á Íslandi eða 30 mánuðir.
Aðgerðir Vinnumálastofnunar síðastliðin ár til að draga úr langtímaatvinnuleysi hafa skilað góðum árangri og hefur hlutfall langtímaatvinnulausra af þeim sem skráðir eru án atvinnu hjá stofnuninni farið úr 25% frá því í ársbyrjun 2023 og niður í 17% í febrúar sl. Reynslan hefur sýnt að snemmtæk íhlutun skiptir þar sköpum. Því lengur sem fjarvera einstaklings frá vinnumarkaði varir þeim mun ólíklegra er að viðkomandi snúi til baka á vinnumarkað og því er brýnt að fjarveran sé ekki of löng.
Til að stuðla að þessu er fyrirhugað að stytta hámarkslengd þess tímabils sem fólk getur fengið greiddar atvinnuleysisbætur og er nú unnið að þeirri útfærslu. Samhliða styttingu bótatímabilsins verður aukinn kraftur lagður í að aðstoða þá sem hafa verið lengi án atvinnu við að komast út á vinnumarkaðinn.
„Markmiðið er að taka betur utan um fólk og virkja þannig mannauðinn okkar. Vanvirkni er eitthvað það allra versta fyrir andlega líðan fólks. Það er óverjandi að festa fólk í slíkri vanvirknisgildru,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Það er mannúð sem felst í því að veita fólki góðan stuðning og markvissa hjálp til að koma þeim aftur í virkni í samfélaginu. Einhver hópur fólks á þó frekar heima í öðrum úrræðum en í atvinnuleysistryggingakerfinu. Þetta snýst um að fólk fái þá þjónustu sem hentar hverjum og einum hverju sinni.“
Samfélagsmál og lýðheilsumál
Samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnun voru 55% af þeim sem fullnýttu rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árunum 2023 og 2024 í vinnu í janúar sl.
Þá voru 1,3% hópsins í fæðingarorlofi nú í janúar, 3% í námi og 6% fengu greiddan ellilífeyri, svo dæmi séu tekin. Tæp 13% hópsins fékk greiðslur frá Tryggingastofnun eða Sjúkratryggingum Íslands og 9% fékk fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Meirihlutinn var þó sem fyrr segir í vinnu í janúar sl.
„Það er hins vegar alltaf hætta á því að við missum fólk í vanvirkni og að það eigi ekki afturkvæmt á vinnumarkað þegar það er lengi atvinnulaust. Það sem hér er undir er þannig bæði samfélagsmál og stórt lýðheilsumál,“ segir Inga.
„Ég vil gera allt sem ég get til að fólk endi ekki ótímabært á örorku, svo dæmi sé tekið, einfaldlega af því að fjarvera þess frá vinnumarkaði var orðin of löng. Á móti kemur að sannarlega er hópur sem á heima innan örorkulífeyriskerfisins og mikilvægt að hann sé þá á réttum stað.“
Heildstæð sýn
Breytingin er hluti af heildstæðri sýn og öðrum kerfisbreytingum. Framangreind áhersla á snemmtæka íhlutun og virkni er þannig í samræmi við breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem taka gildi í haust. Rík áhersla er lögð á endurhæfingu og samvinnu þjónustukerfa til að koma í veg fyrir að fólk falli á milli kerfa. Leiðarstefið er að taka vel utan um þá sem þurfa á endurhæfingu að halda og aðstoða þá síðan við að komast út á vinnumarkað eftir að endurhæfingu lýkur.
Enn fremur er í nýju örorkulífeyriskerfi lögð áhersla á að aðstoða fólk með mismikla starfsgetu við að fá störf á vinnumarkaði. Eftir gildistöku breytinganna getur fólk í fyrsta sinn fengið svokallaðan hlutaörorkulífeyri þar sem frítekjumörk eru hærri en í öðrum greiðsluflokkum og meiri hvatar en áður til atvinnuþátttöku. Samhliða eru viðamiklar aðgerðir fram undan til að fjölga atvinnutækifærum fyrir fólk með hlutaörorkulífeyri, svo sem í gegnum verkefni Vinnumálastofnunar og ÖBÍ réttindasamtaka sem fengið hefur nafnið Unndís. Stefið er þannig sem fyrr að ýta undir virkni og aðstoða fólk við að taka þátt á vinnumarkaði með auknum atvinnutækifærum.
Rétt er að árétta að fyrirhugaðar breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu munu ekki taka til einstaklinga sem þegar fá greiddar atvinnuleysisbætur.
Hvert er hámarksbótatímabilið á hinum Norðurlöndunum?
Atvinnuleysistryggingakerfi milli Norðurlanda eru ekki að öllu leyti sambærileg. Í meðfylgjandi töflu má þó sjá samanburð á milli Norðurlanda og skilyrði þess að atvinnuleitandi teljist hafa áunnið sér fullan bótarétt: