Uppbygging ríflega 600 hjúkrunarrýma 2026-2028
Ráðgert er að afla ríflega 600 nýrra hjúkrunarrýma á árunum 2026-2028, til viðbótar við þau 120 rými sem tekin verða í notkun á þessu ári.
Á tímabilinu 2017-2024 fjölgaði hjúkrunarrýmum um ríflega 40 á ári en á sama tíma fjölgaði þeim sem biðu þeirra úr 331 í 614. Þannig hefur orðið til mikil uppsöfnuð þörf fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma síðustu ár sem brýnt er að taka á. Samhliða er áfram unnið samkvæmt þeirri hugmyndafræði að styðja við búsetu eldra fólks í eigin húsnæði eins lengi og unnt er.
Ráðherranefnd um öldrunarþjónustu hefur á fyrstu fundum sínum fjallað um þennan brýna vanda og hefur ákveðið næstu skref í uppbyggingu hjúkrunarheimila, sem eru m.a.:
- Samningar verða gerðir við átta sveitarfélög um úthlutun lóða undir hjúkrunarheimili í samræmi við breytt fyrirkomulag kostnaðar- og ábyrgðarskiptingar ríkis og sveitarfélaga sem undirritað var 19. mars sl.
- Hafin verður vinna við mótun aðferðafræði við uppbyggingu hjúkrunarheimila á fyrrgreindum lóðum þar sem möguleikar verða kannaðir á aukinni aðkomu langtímafjárfesta, eins og lífeyrissjóða og óhagnaðardrifinna aðila.
- Samningar verða gerðir um uppbyggingu og rekstur 10 hjúkrunarheimila sem hafinn var undirbúningur að á síðasta kjörtímabili, en áhersla lögð á bætta samningsskilmála fyrir ríkið vegna þeirrar mikilvægu þjónustu sem er undir.
- Til að stytta hraðar biðlista enn frekar eftir hjúkrunarrými verður jafnframt unnið að samkomulagi við aðila sem þegar reka hjúkrunarheimili um stækkunarmöguleika á eldri heimilum.
Ráðherranefndin hefur falið stýrihópi um uppbyggingu hjúkrunarheimila, undir forystu félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, að fylgja eftir áherslum stjórnvalda og tekur hann til starfa á næstu dögum.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur, er áformað þjóðarátak í umönnun eldra fólks og sérstök áhersla lögð á nauðsynlega hröðun uppbyggingar hjúkrunarheimila.
„Það er verulega tímabært að hefja fyrir alvöru uppbyggingu hjúkrunarheimila í landinu og hér er komin verkstjórn til starfa sem mun sjá til þess. Eldra fólkið okkar á skilið þá áherslu sem ríkisstjórn Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar leggur á málaflokkinn og ég er stolt að leiða þá vinnu í mínu ráðuneyti,” segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.